Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, talaði við Sky Sports, um framtíð sina hjá félaginu, en samningur hans rennur út eftir tímabilið og hefur hann ekki viljað tjá sig mikið um framhaldið.
Hollendingurinn hefur verið með bestu varnarmönnum heims síðustu ár og átt risastóran þátt í velgengni Liverpool.
Hann, Trent Alexander-Arnold og Mohamed Salah renna allir út á samningi næsta sumar, en það er lítið að frétta af samningamálum þeirra.
Van Dijk segist rólegur yfir stöðunni, en ummæli hans gætu þó gert einhverja stuðningsmenn órólega.
„Ég er rólegur. Málið er að ég vil spila eins vel og ég get á þessu tímabili. Ég vil vera mikilvægur og halda áfram að vera mikilvægur fyrir félagið og síðan sjáum við hvað gerist. Allt gerist af ástæðu, en það er engin breyting á stöðunni. Ég er ótrúlega rólegur yfir þessu og það er engin ástæða fyrir mig að fara að hugsa um eitthvað annað. Ég á eftir að spila heilt tímabil.“
„Ég er stoltur og Anfield er heimili mitt. Eins og ég hef áður sagt, þá er þetta sérstakur staður. Hvað sem gerist í framtíðinni þá mun Anfield alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Sjáum hvað tímabilið ber í skauti sér,“ sagði Van DIjk.
Athugasemdir