Aston Villa er búið að staðfesta að félagið hefur ákveðið að endurkalla sóknarmanninn Louie Barry aftur til félagsins, en hann leikur á láni hjá Stockport County í League One deildinni.
Barry er búinn að skora 14 mörk og gefa 3 stoðsendingar í 20 byrjunarliðsleikjum í deildinni og hefur meðal annars verið orðaður við Leeds United.
Aston Villa tilkynnir að Barry mun snúa aftur til félagsins í byrjun janúar og mun hann reyna að vinna sér inn sæti í leikmannahóp aðalliðsins. Ef það gengur ekki upp verður hann sendur aftur út á lán í janúar.
Barry er 21 árs gamall og skoraði 14 mörk í 25 leikjum með yngri landsliðum Englands, flest fyrir U15 og U16.
Stockport er nýbúið að krækja í Benóný Breka Andrésson úr röðum KR. Benóný er 19 ára gamall og spilar sem framherji.
Athugasemdir