Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   sun 22. desember 2024 17:49
Ívan Guðjón Baldursson
Nistelrooy ósáttur með hegðun stuðningsmanna
Mynd: Leicester City
Ruud van Nistelrooy var vonsvikinn eftir 0-3 tap Leicester á heimavelli gegn Wolves í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Nýliðar Leicester eru núna aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið og skammaði Nistelrooy stuðningsmenn að leikslokum, eftir nokkuð jafnan slag þar sem gestirnir frá Wolverhampton nýttu færin sín betur.

„Það er mikilvægt að skoða hvernig leikurinn spilaðist og hvernig mörkin voru skoruð. Við vitum allir að þessi mörk komu eftir einstaklingsmistök. Þeir sköpuðu ekki dauðafæri gegn okkur og skoruðu alltof auðveld mörk. Þetta eru mörk sem við megum ekki fá á okkur, sérstaklega ekki miðað við stöðuna sem við erum í," sagði Nistelrooy.

„Þetta var mjög mikilvægur leikur fyrir okkur og þetta er svekkjandi en við höldum áfram á okkar braut. Ég get ekki kennt leikmönnum um fyrir að gera óheppileg mistök. Svona atvik gerast í fótbolta.

„Ég man fyrir þremur vikum þegar ég byrjaði hérna þá náðum við í fjögur stig úr tveimur leikjum og stuðningsmenn og leikmenn voru gríðarlega ánægðir. Við vildum fá mun meira úr þessum leik heldur en við fengum og það voru vonbrigði að sjá hvernig hluti stuðningsmanna snérist gegn okkur og lagði ákveðna leikmenn í einelti í tapinu í dag.

„Það er undir okkur komið að spila betur og skilja pirring stuðningsmanna. Við erum liðsheild og við þurfum að standa saman, við erum að vinna hörðum höndum að því að snúa slæmu gengi við."

Athugasemdir
banner
banner
banner