Það fóru tveir leikir fram í efstu deild þýska boltans í dag þar sem Borussia Dortmund kom sér aftur á sigurbraut eftir að hafa gert þrjú jafntefli í röð.
Dortmund heimsótti Wolfsburg á erfiðum útivelli en gerði út um viðureignina með þremur mörkum á fimm mínútna kafla í fyrri hálfleik.
Donyell Malen, Maximilian Beier og Julian Brandt skoruðu með stuttu millibili, þar sem Beier og Brandt áttu einnig stoðsendingar, og leiddi Dortmund með þremur mörkum allt þar til í síðari hálfleik.
Slóvakíski varnarmaðurinn Denis Vavro minnkaði muninn í síðari hálfleik og fékk Pascal Gross beint rautt spjald skömmu síðar en það kom ekki að sök. Lokatölur urðu 1-3 fyrir Dortmund sem er komið með 25 stig eftir 15 umferðir - tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti.
Fyrr í dag sigraði Bochum 2-0 gegn Heidenheim í fallbaráttunni. Bochum vermir botnsæti deildarinnar og var þetta fyrsti sigur liðsins á deildartímabilinu. Liðið er aðeins komið með 6 stig eftir 15 umferðir. Heidenheim er í umspilssæti með 10 stig.
Wolfsburg 1 - 3 Borussia Dortmund
0-1 Donyell Malen ('25 )
0-2 Maximilian Beier ('28 )
0-3 Julian Brandt ('30 )
1-3 Denis Vavro ('58 )
Rautt spjald: Pascal Gross, Dortmund ('62)
Bochum 2 - 0 Heidenheim
1-0 Moritz Broschinski ('6 )
2-0 Matus Bero ('38 )
Athugasemdir