Arne Slot var himinlifandi með sóknarleik sinna manna í Liverpool eftir magnaðan 6-3 sigur á útivelli gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Liverpool komst í 5-1 forystu en heimamenn í liði Tottenham gáfust ekki upp og minnkuðu muninn aftur niður í tvö mörk, áður en Luis Díaz gulltryggði frábæran sigur.
Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir þennan sigur, með fjögurra stiga forystu og leik til góða á næstu lið.
„Við vorum frábærir og héldum að við værum búnir að gera nóg þegar staðan er 5-1, en svo var ekki. Það má aldrei afskrifa Tottenham, þetta er lið sem getur alltaf skapað sér færi og skorað. Allir leikirnir sem þeir hafa tapað gegn stórliðum þá eru þeir inni í leiknum allt þar til á síðustu sekúndunum," sagði Slot.
„Þetta var frábær frammistaða hjá okkur, að undanskildum þessum 20 mínútum þar sem strákarnir hættu bara að hlaupa og gáfu tvö mörk. Þessar 20 mínútur eru kannski hollar fyrir okkur, við þurfum að læra af þeim. Við megum ekki hætta að spila í miðjum leik.
„Við spiluðum gegn mjög sterkum andstæðingum í dag og mér líst vel á það sem Ange er að gera hjá Tottenham. Það má ekki gleyma því að hann er þjálfa fótboltalið sem hefur ekki unnið mikið af keppnum síðustu áratugi. Við gátum unnið þennan leik í dag því við erum með heimsklassa leikmenn í liðinu, þú getur ekki spilað fyrir Liverpool ef þú ert ekki afburða góður fótboltamaður.
„Við erum með frábært fótboltalið og það eru ekki mistök að við séum á toppi deildarinnar. Þetta er ótrúlega erfið deild, ef það væri auðvelt að vinna deildina þá væru öll liðin búin að gera það."
Athugasemdir