Í morgun birtum við lista yfir tíu leikmenn í Pepsi Max-deildinni slógu rækilega í gegn í sumar. Nú er komið að því að fara á hinn endann og skoða tíu leikmenn sem stóðu alls ekki undir væntingum í sumar.
Ragnar Sigurðsson (Fylkir) - Stuðningsmenn Fylkis réðu sér ekki fyrir kæti þegar Raggi Sig mætti heim í Árbæinn. En draumurinn varð að martröð. Raggi náði sér alls ekki á strik og Fylkir féll.
Hörður Ingi Gunnarsson (FH) - Var valinn í landsliðshóp í maí en innan vallar gekk Herði erfiðlega. Landsliðsvalið setti á hann aukna pressu sem hann stóð ekki undir.
Valgeir Valgeirsson (HK) - Var skugginn af sjálfum sér þegar hann mætti aftur til HK og Kópavogsliðið endaði á því að falla. Allir vita þó hvað býr í Valgeiri og hann er virkilega eftirsóttur.
Haukur Páll Sigurðsson (Valur) - Fyrirliði Íslandsmeistara síðasta árs var verulega langt frá sínu besta í sumar. Þessi mikli leiðtogi vill væntanlega gleyma þessu tímabili sem fyrst.
Martin Rauschenberg (HK) - Fyrir tímabilið var talað um hann sem mögulega einn besta miðvörð deildarinnar. Hann stóð engan veginn undir því umtal. Vörn HK var hriplek og fall niðurstaðan.
Einar Karl Ingvarsson (Stjarnan) - Stóð ekki undir þeim miklu væntingum sem til hans voru gerðar í Garðabænum. Átti að fylla skarðið sem Alex Þór Hauksson skildi eftir sig á miðsvæðinu en tókst það engan veginn.
Kristján Flóki Finnbogason (KR) - Getur svo miklu betur en hann sýndi í sumar. Skoraði aðeins þrjú mörk í átján leikjum og í Vesturbænum gera menn kröfu um meira.
Patrick Pedersen (Valur) - Kröfurnar á Patrick eru þær að hann sé besti leikmaður deildarinnar. Var mikil vonbrigði og þrenna gegn Fylkismönnum sem höfðu pakkað saman fyrir lokaumferðina breytir litlu þar um.
Eggert Gunnþór Jónsson (FH) - Eftir frábæra innkomu í deildina í fyrra var Eggert langt frá sínu besta í sumar, eins og reyndar fleiri í liði FH.
Athugasemdir