Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   mið 30. október 2019 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Oliver vill losna frá Bodö - Ósáttur við framkomuna í sumar
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver Sigurjónsson gekk á miðju sumri árið 2017 í raðir Bodö/Glimt frá Breiðabliki. Bodö lék þá í næstefstu deild í Noregi en komst upp um deild það haustið.

Oliver kom við sögu í tveimur leikjum á þeirri leiktíð áður en hann meiddist illa. Oliver var lánaður til Breiðabliks fyrir sumarið 2018 og endaði á því að leika með Breiðablik allt það tímabil.

Oliver sneri til baka eftir leiktíðina á Íslandi og ætlaði að vinna sér inn sæti í liði Bodö á þessari leiktíð.

Oliver hefur einungis komið við sögu í tveimur leikjum á leiktíðinni, í 2. og 16. umferð deildarinnar, oftast hefur Oliver ekki verið í leikmannahópi liðsins.

Bodö hefur komið mörgum á óvart með gengi sínu á leiktíðinni en liðið situr í 2. sæti Eliteserien, sex stigum á eftir toppliði Molde þegar fjórar umferðir eru eftir af deildinni.

Fótbolti.net hafði samband við Oliver og fór yfir stöðu mála með miðjumanninum.

Fengið mjög lítið að spila
Oliver var fyrst beðinn um að gera upp tíma sinn hjá Bodö/Glimt í heild sinni og einnig hvernig hann horfi til baka á lánstímabilið með Breiðablik. Svo var Oliver beðinn um að fara yfir stöðu Bodö/Glimt og gengi liðsins.

„Í heildina er þetta búið að vera ömurlegt þegar kemur að spiltíma. Ég kom heim 2018 til þess að koma mér í leikform og fá sjálfstraust, það gekk mjög vel að mínu mati."

„Undirbúningstímabilið 2019 gekk vel hjá mér og ég var í samkeppni við einn miðjumann um að vera djúpur á miðjunni á tímabilinu en það var eins og þjálfarinn væri búinn að ákveða liðið áður en við mættum á undirbúningstímabilið."

„Liðinu hefur gengið trúlega vel á tímabilinu. Okkur var spáð neðsta sæti af fjórum af sex fréttamiðlum og erum í 2. sæti og búnir að vera í titilbaráttu allt tímabilið."


Félagið með mikið drama í sumarglugganum
Oliver bað um að fá að fara í sumarglugganum en félagið neitaði að losa leikmanninn fyrr en á lokadegi gluggans.

„Það er erfitt að segja eitthvað við þjálfarann þegar liðinu gengur svona vel. Ég vildi fara í sumarglugganum og tjáði klúbbnum það. Ég var nálægt því að fara en það gekk ekki upp að lokum þar sem klúbburinn var aftur með drama þegar kom að félagsskiptum."

„Á síðasta degi gluggans bað klúbburinn um að segja upp samningnum við mig. Hversu lélegt að bíða allan gluggann, reyna að fá eitthvað fyrir þig (kaupverð) og á síðasta deginum biðja um uppsögn þegar glugginn í öðrum löndum var að loka og ég gat ekki skipt um klúbb?"

„Eftir að allt þetta rugl gerðist tjáði þjálfarinn mér að stefnan hjá klúbbnum/stjórninni væri að hafa unga Bodo/Glimt leikmenn í hóp en ekki mig þar sem ég sagðist vilja fara. Á hverjum einasta fundi sem ég á með þjálfaranum, segir hann að ég sé mikilvægur í hópnum og ég sé að æfa vel en fæ aldrei að spila, svolítið skrítið."


Oliver segir félagið aftur hafa verið með drama, hvað meinar hann með þeim orðum?

„Það kom lánstilboð snemma í glugganum sem Bodö neitaði. Þeir lofuðu mér að fara á lán en stjórnarformaðurinn neitaði þegar tilboðið kom."

Kærastan ólétt sem hvetur Oliver áfram
Oliver bað um að fá að leika með varaliðinu í kjölfar sumargluggans og fékk það til að byrja með. Kærasta Olivers er þá kominn langt á leið sem hvetur Oliver áfram í þessari brekku á ferlinum.

„Eftir gluggann bað ég um að fá að spila leiki með varaliðinu þar sem staðan væri svona, ég fékk þrjá leiki í byrjun en eftir það var mér neitað að spila þar sem ég þurfti að æfa með aðalliðinu."

„Kærastan mín er ólétt og er hún sett í nóvember, þannig það hefur mótiverað mig og ég er gríðarlega spenntur fyrir því verkefni."


Ekki heyrt í íslenskum félögum
Oliver var spurður út í orðróma en slúðrað var um að hann væri mögulega á leið í FH eða Breiðablik. Að lokum var hann spurður út í framtíðina og hvert stefnan væri sett.

„Ég hef ekkert heyrt í neinum klúbbum á Íslandi."

„Stefnan er að losna frá Bodo/Glimt og finna nýjan klúbb. Ég hef ekki fengið að tengja 10-15 leiki erlendis til að sýna fyrir mér og öðrum hvað ég get."

„Það er mín ósk að halda áfram úti og vonandi get ég tekið eitt skref til baka og svo tvö skref fram. Framtíðin er óvissa og ég er opinn fyrir öllu,"
sagði Oliver Sigurjónsson að lokum.

Oliver er samningsbundinn Bodö fram á næsta sumar.
Athugasemdir
banner
banner