Diego Simeone þjálfari Atlético Madrid er afar svekktur eftir að liðið hans var slegið úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Atlético tapaði í vítaspyrnukeppni gegn Real Madrid, þar sem vítaspyrna Julián Alvarez var dæmd ógild því hann rann til og snerti óvart boltann með báðum fótum.
Atlético tapaði fyrri leiknum 2-1 á Santiago Bernabéu en sigraði svo 1-0 á heimavelli til að fara í framlengingu og vítaspyrnukeppni.
„Við unnum seinni leikinn í Meistaradeildinni en UEFA sló okkur svo úr leik. Við unnum þennan leik," sagði Simeone eftir jafntefli við Espanyol í spænsku deildinni um helgina. Næsti leikur Atlético er gegn Barcelona í undanúrslitum spænska Konungsbikarsins á miðvikudag.
Liðin gerðu 4-4 jafntefli í fyrri leiknum í Barcelona í lok febrúar og mættust svo í La Liga um miðjan mars. Barca vann þann leik 2-4 í Madríd.
„Í síðasta leik gegn Barcelona fengum við fjögur mörk á okkur á tuttugu mínútum. Við verðum að gera betur næst."
Atlético er svo gott sem búið að missa af titilbaráttunni í La Liga eftir að hafa aðeins nælt sér í eitt stig úr síðustu þremur leikjum. Lærlingar Simeone þurfa að sigra alla leikina sem eftir eru og vonast til að Barcelona og Real Madrid misstigi sig.
Atlético er níu stigum á eftir toppliði Barca þegar níu umferðir eru eftir.
Athugasemdir