Áhugi Man Utd á Delap eykst - Telja að Salah hafi áhuga á að fara til Sádi-Arabíu - Newcastle reynir við Elliott
   þri 01. apríl 2025 17:30
Elvar Geir Magnússon
Tíu spennandi ungstirni til að fylgjast með í Bestu deildinni
Arnar Laufdal setti saman listann.
Arnar Laufdal setti saman listann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Besta deildin fer af stað á laugardaginn og Fótbolti.net heldur áfram að hita upp fyrir deildina með ýmsum hætti. Nú ætlum við að beina sjónum okkar að ungum og spennandi leikmönnum.

Það er enginn betur til þess fallinn að mæla með ungstirnum en Arnar Laufdal Arnarsson sem bendir hér á tíu leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér.

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Þorri stefán Þorbjörnsson (18 ára) - Fram
Ungur og gríðarlega efnilegur hafsent sem heldur betur passaði inn í fimm manna vörn Rúnars Kristinssonar síðasta sumar. Þorri er stór og stæðilegur og ber hann einnig þann “eiginleika” ef svo má segja, að vera örfættur sem vinsæl söluvara í fótboltanum í dag, vinstri fótar hafsent. Framarar hafa hafnað nokkrum tilboðum í Þorra. Mögulega er þetta síðasta sumarið sem við sjáum af Þorra á íslenskri grundu, ef hann heldur rétt á spilunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Daði Berg Jónsson (18 ára) - Vestri (lán frá Víkingi)
Virkilega spennandi strákur sem er alinn upp í Víkinni. Tekur skemmtilega og hugrakka ákvörðun þar sem tekur slaginn með Vestra í sumar, fer vestur og einbeitir sér bara að fótboltanum og gæti þetta reynst vera frábær ákvörðun. Daði sýndi það síðasta sumar að hann er leikmaður sem býr yfir miklum krafti, hraða í bland við góða tækni. Benedikt Waren sem var keyptur á yfir 10 milljónir króna núna í vetur til Stjörnunnar var auðvitað í Vestra, tók slaginn þar og blómstraði, trúi ekki öðru en það sama verði upp á teningnum hjá Daða.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét

Gabríel Snær Hallsson (18 ára) - Breiðablik
Ungur og spennandi leikmaður sem hefur verið að spila virkilega vel í stöðu vinstri bakvarðar á undirbúningstímabilinu hjá Íslandsmeisturum Breiðabliks, í fjarveru Kidda Jóns. Gabríel er réttfættur og hefur upp yngri flokkana verið að spila töluvert ofar á vellinum, miðað við tækifærin sem Dóri hefur verið að gefa Gabríel í vetur kæmi ekkert á óvart ef hann fær að sýna fótboltaáhugamönnum hvað í honum býr.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ásgeir Helgi Orrason (19 ára) - Breiðablik
Umræðan hefur verið sú að Breiðabliki vanti einn hafsent í sínar raðir en það er einn efnilegur í herbúðum þeirra sem getur mögulega fyllt í það skarð. Ásgeir Helgi átti frábært tímabil með Keflavík síðasta sumar og var hann einmitt valinn í lið ársins í Lengjudeildinni hér á Fótbolta.net þannig spurning hvort það sé komið að því að hann fái að sýna hæfileika sína í grænu treyjunni í sumar. Ásgeir sem verður tvítugur á árinu og hefur margt til brunns að bera.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Kjartan Már Kjartansson (18 ára) - Stjarnan
Að segja að Kjartan Már upplifði endurnýjun lífdaga síðasta sumar er kannski ósanngjarnt en eftir að Jökull Elísabetarson byrjaði að spila Kjartani sem djúpum miðjumanni fóru mjög áhugaverðir hlutir að gerast. Átti frábæra leiki í þeirri stöðu og í kjölfarið fylgdi mikill áhugi frá liðum í Noregi, spurning hvort hann fari út núna rétt fyrir mót en taki hann eitt tímabil í viðbót, þá verður mjög spennandi að fylgjast með Kjartani.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson

Bjarki Hauksson (18 ára) - Stjarnan)
Mikil snerpa og hraði sem býr í þessum strák sem getur spilað bæði í bakverðinum sem og á kantinum. Spilaði með KFG í fyrra og hefur verið að koma vel inn í hlutina hjá Jökli. Með innkomu Þorra Mar og bara það að Stjörnumenn eru vel mannaðir, spurning hvort hann fari á lán en ef ekki er þetta klárlega leikmaður sem ekki bara stuðningsmenn Stjörnunnar ættu að fylgjast með, heldur allir aðrir líka.
Mynd: Mummi Lú

Róbert Elís Hlynsson (18 ára) - KR
ÍR-ingurinn geðugi gekk til liðs við KR í vetur og voru mörg lið á eftir kauða. Klár og fjölhæfur leikmaður sem er með öflugan hægri fót. Búinn að vera spila slatta á undirbúningstímabilinu, ég á eftir að sjá meira af þessum leikmanni en miðað við áhugann sem var á honum í vetur og spiltímann sem hann hefur fengið þá trúi ég ekki öðru en að þessi leikmaður mun spjara sig í deild þeirra bestu á komandi árum, og rúmlega það.
Mynd: KR

Halldór Snær Georgsson (21 árs) - KR
Undirritaður er mest spenntur að fylgjast með hvernig þessum unga dreng gengur í sumar. Halldór sem er unglingalandsliðsmaður er að taka stórt stökk á sínum ferli en hann er núna orðinn aðalmarkvörður KR. Stórt stökk úr Fjölni í Lengjudeildinni yfir í svona stóran klúbb eins og KR og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með því hvernig hann tekur þeirri áskorun, það munu eflaust koma nokkur mistök hjá svona ungum markmanni en undirritaður er handviss um að þessi strákur á eftir að reynast KR-ingum mjög vel næstu árin og hentar hann fullkomlega inn í þann fótbolta sem Óskar Hrafn vill spila.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Júlíus Mar Júlíusson (20 ára) - KR
Óskar Hrafn hefur verið duglegur að yngja upp leikmannahóp KR og Júlíus Mar er einn af þeim, líkt og Halldór Snær kemur hann úr akademíu Fjölnis þar sem hann lék virkilega vel og verðskuldaði stökk upp í deild þeirra bestu. Ákveðinn strákur með mikla leiðtoga hæfileika sem hann sækir kannski til eldri bróðir síns, Gumma Júl. Hann spilar stöðu miðvarðar og líkt og Halldór hentar Júlíus mjög vel inn í leikstíl Óskars Hrafns þar sem Júlíus er upprunalega miðjumaður þannig hann vill hafa boltann og stjórna spilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Baldur Kári Helgason (20 ára) - FH
Strákur sem hefur verið hægt og örugglega að gera sig gildandi hjá Fimleikafélaginu og gæti þetta verið tímabilið þar sem springur út. Öflugur vinstri fótur í bland við góða tækni og hefur hann verið að spila stöðu bakvarðar sem og miðjumanns þannig hann getur bæði sinnt varnarvinnu og reynst andstæðingnum erfiður sóknarlega.
Athugasemdir
banner
banner