Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   mán 31. mars 2025 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Arsenal þarf að kaupa þrjá leikmenn og semja við sex aðra
Mynd: Arsenal
Mynd: EPA
Andrea Berta er genginn til liðs við Arsenal eftir að hafa gert frábæra hluti hjá Atlético Madrid.

Hann tekur við af Edu Gaspar sem yfirmaður fótboltamála hjá enska stórveldinu, þar sem er gríðarlega mikilvægt sumar framundan.

Arsenal hefur verið að gera flotta hluti undir stjórn Mikel Arteta en ekki tekist að sigra ensku úrvalsdeildina. Stuðningsmenn Arsenal vonast til að Andrea Berta muni hjálpa til við að breyta því.

Berta fékk menn á borð við Rodri, Antoine Griezmann og Jan Oblak til Atlético Madrid á frábærum kjörum áður en hann seldi þá aftur fyrir mikinn hagnað. Það er mikil pressa á honum hjá Arsenal þar sem helsta markmið félagsins er að kaupa öflugan framherja.

Eftir að því verkefni er lokið þarf félagið einnig að finna miðjumann með góða sendingagetu til að taka við af Jorginho og Thomas Partey sem renna út á samningi, þó að Partey gæti enn fengið nýjan samning hjá félaginu. Martin Zubimendi er efstur á óskalistanum fyrir þá stöðu.

Eftir það vantar nýjan varamarkvörð fyrir David Raya, eftir að Pedro Neto fer aftur til Bournemouth þar sem hann er einungis hjá Arsenal á lánssamningi.

Þegar öllum kaupum er lokið þurfa Berta og stjórnendur að einbeita sér að samningsviðræðum við núverandi leikmenn félagsins. Bukayo Saka, William Saliba, Gabriel Magalhaes og Gabriel Martinelli eiga aðeins tvö ár eftir af samningi og þá vilja Myles Lewis-Skelly og Ethan Nwaneri fá endurbætta samninga í ljósi mikilvægi síns fyrir aðalliðið.

Þá eru leikmenn á borð við Kieran Tierney, Oleksandr Zinchenko og Jakub Kiwior á leið burt frá félaginu í sumar en óljóst er hvort Arsenal þurfi að selja fleiri leikmenn til að fjármagna kaup á nýjum.
Athugasemdir
banner
banner