Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   sun 30. mars 2025 16:24
Brynjar Ingi Erluson
Cunha tilbúinn að taka næsta skref - „Ég vil berjast um titla“
Matheus Cunha
Matheus Cunha
Mynd: EPA
Brasilíski sóknarmaðurinn Matheus Cunha segist tilbúinn að taka næsta skref ferilsins og vill helst af öllu taka það eftir tímabilið en hann staðfesti þetta í viðtali við Guardian.

Cunha hefur borið Úlfanna á herðum sér á tímabilinu og skorað 13 mörk ásamt því að gefa 4 stoðsendingar í deildinni.

Allt tímabilið hefur liðið verið að berjast við botninn en er nú níu stigum fyrir ofan fallsæti þegar níu leikir eru eftir.

Brassinn hélt tryggð sína við félagið í janúarglugganum og ákvað að framlengja í stað þess að fara í stærra lið en hann býst við að fá tækifærið til að taka næsta skref í sumar.

„Ég hef verið mjög skýr með það að ég þurfi að taka næsta skref ferilsins, núna þegar við erum að nálgast markmið okkar um að halda sæti félagsins í deildinni,“ sagði Cunha.

„Ég vil berjast um titla og um stóra hluti. Ég hef hæfileikana til þess. Ég fékk mörg tilboð en mér hefði ekki liðið vel með að fara. Sumu getur maður ekki stjórnað, en ég bara gat ekki farið frá félaginu, sem var í erfiðri stöðu í fallsvæði, á miðju tímabili,“ sagði Cunha enn fremur.

Eins og Cunha kom inn á voru mörg félög áhugasöm um að fá hann í síðasta glugga og er fastlega gert ráð fyrir því að þau reyni aftur við hann í sumar.

Arsenal, Chelsea og Manchester United eru öll mjög áhugasöm og klárt mál að það verður hart barist um undirskrift hans þegar nær dregur sumri.
Athugasemdir
banner
banner
banner