Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   sun 30. mars 2025 20:19
Ívan Guðjón Baldursson
Stoltur af sjö undanúrslitaleikjum í röð: Vorum framúrskarandi
Mynd: Man City
Mynd: EPA
Pep Guardiola var ánægður eftir góðan sigur Manchester City á útivelli gegn Bournemouth í 8-liða úrslitum enska bikarsins í dag.

Man City var sterkari aðilinn í leiknum en lenti undir og þurfti að skora tvö mörk í síðari hálfleik til að snúa stöðunni við og tryggja sér sigur.

„Við spiluðum framúrskarandi leik og vorum vaðandi í færum. Við klúðruðum dauðafærum og vítaspyrnu og fengum mark á okkur úr fyrsta og eina færinu sem við gáfum þeim," sagði Guardiola að leikslokum.

„Við vorum stórkostlegir og það er magnað afrek að komast sjö sinnum í röð í undanúrslit bikarsins. Við erum fyrsta félagið til að afreka þetta og það verður mjög erfitt fyrir önnur félög að endurtaka leikinn í framtíðinni."

Staðan var 1-0 fyrir Bournemouth í leikhlé og gerði Pep Guardiola eina skiptingu, þar sem miðjumaðurinn Nico O'Reilly kom inn fyrir varnarmanninn Abdukodir Khusanov.

„Ég sagði við strákana í hálfleik að við værum með leikinn í höndum okkar. Við áttum góðan fyrri hálfleik og vorum óheppnir. Við vorum ekki nógu rólegir á boltanum en það lagaðist í seinni hálfleik. Nico (O'Reilly) kom inn og breytti leiknum, hann er virkilega, virkilega góður fótboltamaður."

Man City mætir Nottingham Forest í undanúrslitum og býst Pep við skemmtilegum slag þegar liðin mætast á Wembley.

„Við erum búnir að vinna Samfélagsskjöldinn á arfaslöku tímabili fyrir okkur. Það er ekkert að fara að breyta því að þetta hefur verið mjög lélegt tímabil hjá okkur. Við töpuðum úrslitaleiknum í fyrra og vonandi tekst okkur að lagfæra það í ár. Markmiðið okkar er samt sem áður að tryggja okkur sæti í Meistaradeild Evrópu, það er meginmarkmiðið á lokakaflanum."
Athugasemdir
banner
banner