Þetta er bara spá. Fyrir spá einstakra manna geta verið margvíslegar ástæður. Einhverjir vilja setja pressu á okkur og spá okkur ofarlega, sumir hafa ekki séð leik og spá eftir tilfinningu og umræðu og aðrir hafa raunverulega séð okkur og finnst við vera fínir. Í þessum hrærigraut verður til spá sem erfitt er að hafa sérstaka skoðun á," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, um spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina.
KR er spáð fjórða sæti deildarinnar í sérstakri spá Fótbolta.net fyrir mótið.
KR er spáð fjórða sæti deildarinnar í sérstakri spá Fótbolta.net fyrir mótið.
„Mér finnst leikmönnum hafa tekist vel að nálgast sjálfsmyndina sem við viljum hafa sem lið. Við höfum orðið betri í flestum þeim þáttum sem við einbeitum okkur að þó að sjálfsögðu sé mikið svigrúm til að bæta sig enn frekar," segir Óskar um veturinn.
„Stemningin er frábær og andinn er virkilega góður. Þótt hópurinn hafi tekið töluverðum breytingum frá því í fyrra þá hefur það tekið strákana stuttan tíma að verða að þéttum hóp sem stendur saman og er með sameiginlegt markmið."
Hvernig horfirðu til baka á síðasta tímabil? Hvernig leggst það í þig að fara inn í fyrsta heila tímabilið með KR?
„Ég horfi til baka á síðasta tímabil sem fyrsta skrefið í því að ganga annan veg en kannski flestir ætlast til af okkur. Það getur verið erfitt að fara út fyrir veginn sem er ætlast til að þú farir og síðasta sumar var ágætis æfing í því. Það sýndi mér líka að þegar leikmenn trúa í einlægni á eitthvað þá verða þeir ekki litlir og fara í felur við fyrstu hindrun. Það er gott veganesti fyrir komandi tímabil."
„Ég get ekki beðið eftir að tímabilið byrji. Hef sjaldan eða aldrei hlakkað jafnmikið til nokkurs tímabils, hvorki sem leikmaður né þjálfari."
Ertu ánægður með það hvernig leikmannahópurinn lítur út? Er von á frekari liðsstyrk?
„Ég er mjög ánægður með leikmannahópinn en það var gríðarlegt áfall að missa Stefán Árna sem við komum til með að sakna mjög mikið. Ég á ekki von á frekari liðsstyrk. Að því sögðu þá erum við öllum stundum að leita leiða til að bæta liðið og horfum þá jafnmikið inná við eins og út á við."
Óskar segir að markmiðið fyrir sumarið sé að minnka bilið í bestu lið landsins.
„Markmið sumarsins er að minnka bilið sem bestu lið landsins Breiðablik, Víkingur og Valur hafa byggt upp á okkur á undanförnum árum," segir Óskar.
Einhver skilaboð til stuðningsmanna að lokum?
„Allir KR-megin í stúkunni verða að vera þolinmóðir. Við erum í uppbyggingu og það er ekki til það töfraduft sem hægt er að strá yfir svo KR verði aftur í allra fremstu röð á einu augnabliki. Ég bið þá um að fara út fyrir þægindarammann með leikmönnunum, umvefja ófullkomleikann sem þeir munu upplifa í hverjum leik og njóta þess að sjá liðið þroskast og dafna í sumar," sagði Óskar að lokum.
Athugasemdir