Marcus Rashford skoraði tvö mörk og hjálpaði Aston Villa að komast í undanúrslit enska bikarsins í 3-0 sigrinum á Preston á Deepdale-leikvanginum í dag, en hann telur sig geta gert enn betur.
Rashford er á láni hjá Villa frá Manchester United en hann hefur spilað mjög vel undir stjórn Unai Emery og hefur nú komið að sex mörkum í öllum keppnum.
Hann hafði ekki skorað fyrir Villa fyrir leikinn gegn Preston, en opnaði markareikninginn með stæl. Hann gerði fyrsta mark sitt eftir lágfyrirgjöf Lucas Digne og tvöfaldaði forystuna með öruggri vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar.
Rashford segist líða frábærlega og telur sig geta komist í enn betra form.
„Tilfinningin er frábær. Mér finnst ég vera að komast í betra form og spila betri fótbolta frá því ég samdi við félagið. Það er alltaf notalegt fyrir framherja að skora mörk og vonandi held ég áfram á sömu braut.“
„Við verðum að taka einn leik í einu, gefa 100 prósent á vellinum og sjá hvert það leiðir okkur. Við erum mjög metnaðarfullir.“
„Þetta er að koma, skref fyrir skref. Ég tel mig geta komist í betra form. Ég missti mikið úr áður en ég kom til Villa en mér líður vel í líkamanum og í augnablikinu er ég að njóta fótboltans,“ sagði Rashford.
Athugasemdir