Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   sun 30. mars 2025 21:35
Ívan Guðjón Baldursson
AGF er með í titilbaráttunni - Utrecht ætlar í Meistaradeild
Mynd: Panathinaikos
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Síðustu leikjum dagsins er lokið hjá atvinnumönnum okkar Íslendinga sem leika erlendis.

Sverrir Ingi Ingason var í byrjunarliði Panathinaikos sem tapaði í toppbaráttu gríska boltans gegn Olympiakos.

Olympiakos vann innbyrðisviðureignina 4-2 og er með tíu stiga forystu á toppi deildarinnar. Panathinaikos er í þriðja sæti, þrettán stigum á eftir Olympiakos og þremur stigum frá sæti í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð.

Andri Lucas Guðjohnsen var þá í byrjunarliði Gent sem steinlá gegn Genk í efstu deild belgíska boltans og var heppið að tapa ekki stærra heldur en 4-0.

Heimamenn í liði Genk klúðruðu tveimur vítaspyrnum og fengu mark dæmt af vegna hendi eftir að VAR-herbergið skarst í leikinn. Grikkinn ungi Konstantinos Karetsas, sem átti stórleik gegn Skotlandi í landsleikjahlénu, skoraði fyrsta mark leiksins á 38. mínútu.

Staðan var 1-0 í hálfleik og tvöfaldaði Emmanuel Arokodare forystuna í upphafi síðari hálfleiks. Þá var Andra Lucasi skipt af velli, en það átti ekki eftir að bæta stöðu Gent sem tapaði að lokum 4-0.

Genk er á toppi deildarinnar á meðan Gent er í sjötta sæti, þremur stigum frá Evrópusæti.

Í efstu deild danska boltans tapaði Midtjylland heimaleik gegn Bröndby með Elías Rafn Ólafsson á milli stanganna.

Midtjylland var sterkari aðilinn en tókst ekki að nýta færin sín svo lokatölur urðu 0-2 fyrir Bröndby.

Midtjylland trónir áfram á toppi dönsku deildarinnar og er þar með fjögurra stiga forystu á FCK sem á þó leik til góða.

AGF er í þriðja sæti deildarinnar, sex stigum frá toppsætinu, eftir sigur gegn Nordsjælland í dag en Mikael Neville Anderson, sem er afar mikilvægur hlekkur í liði Árósa, var ekki í hóp.

Í Belgíu gerði Kortrijk jafntefli við Cercle Brugge í fallbaráttuslag en Patrik Sigurður Gunnarsson var ekki með vegna meiðsla. Kortrijk er í falsæti sem stendur, sex stigum frá umspilssæti um laust sæti í efstu deild.

Kolbeinn Birgir Finnsson sat á bekknum og horfði á liðsfélaga sína í Utrecht leggja Heerenveen að velli í efstu deild í Hollandi. Utrecht er að eiga magnað tímabil og situr í þriðja sæti deildarinnar, með 52 stig úr 27 umferðum. Liðið er í harðri baráttu Við Feyenoord, Twente FC, AZ Alkmaar og Go Ahead Eagles um sæti í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð.

Adam Ingi Benediktsson var á bekknum hjá Östersund sem lagði Trelleborg að velli í næstefstu deild í Svíþjóð. Adam er varamarkvörður hjá Östersund sem mætti til leiks í fyrstu umferð nýs deildartímabils í dag.

Hákon Arnar Haraldsson var að lokum ónotaður varamaður í dýrmætum sigri Lille gegn Lens í franska boltanum.

Olympiakos 4 - 2 Panathinaikos

Genk 4 - 0 Gent

Midtjylland 0 - 2 Bröndby

AGF 2 - 0 Nordsjælland

Kortrijk 2 - 2 Cercle Brugge

Trelleborg 0 - 1 Östersund

Lille 1 - 0 Lens

Utrecht 2 - 0 Heerenveen

Athugasemdir
banner