Áhugi Man Utd á Delap eykst - Telja að Salah hafi áhuga á að fara til Sádi-Arabíu - Newcastle reynir við Elliott
   þri 01. apríl 2025 09:00
Elvar Geir Magnússon
Halda því fram að besti miðvörðurinn sé á Akranesi
Er Erik Tobias Sandberg besti miðvörður Bestu deildarinnar?
Er Erik Tobias Sandberg besti miðvörður Bestu deildarinnar?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Hann ætlaði að fara úr því að vera kallaður besti vinur Haaland yfir í að vera bara Erik Tobias, besti varnarmaður á landinu, og hann heldur betur sýndi það og sannaði," segir Andri Júlíusson, fyrrum leikmaður ÍA, í Niðurtalningunni þar sem hitað er upp fyrir Bestu deildina.

Andri og frændi hans Sverrir Mar Smárason ræddu um sína menn í ÍA og telja sig hafa besta miðvörð deildarinnar í sínum röðum; Erik Tobias Sandberg. Þegar þessi 25 ára leikmaður kom á Akranes var mikið gert úr því að hann væri æskuvinur Erling Haaland.

Erik Tobias lék lykilhlutverk hjá ÍA í fyrra þegar liðið var lengi vel í baráttu um Evrópusæti en endaði að lokum í fimmta sæti.

„Eftir fyrstu tíu leikina í fyrra var ég enn meira viss um að hann væri besti hafsent í þessari deild. Ég er enn á því og mun ekki fara af því. Komið með einhver nöfn og ég fer í rökræður," segir Sverrir og telur að ÍA hefði ekki vegnað svona vel án hans.

„Hann bakkar upp hvern einasta mann og alltaf klár í að sópa upp. Það er ekki hægt að telja boltana sem hann hirðir upp. Fyrir mér var hann besti leikmaður ÍA í fyrra."

„Það hefur alls ekki verið talað mikið um hann og hann kannski ekki fengið það hrós sem hann hefur átt skilið. Hann er mjög mikilvægur og það var gott skref að gera nýjan samning við hann," segir Andri.
Niðurtalningin - Frændurnir fara yfir allt það helsta á Skaganum
Athugasemdir
banner