Landsliðskonan Cecilía Rán Rúnarsdóttir og stöllur hennar í Inter opnuðu titilbaráttuna upp á gátt er liðið vann 3-2 baráttusigur á toppliði Juventus í Seríu A í dag.
Inter var svo gott sem búið að skrá sig úr baráttunni og gat Juvventus sett níu fingur á titilinn með hagstæðum úrslitum í Mílanó.
Juventus var með tíu stiga forystu fyrir leikinn þegar fimm leikir voru eftir og gat í raun tryggt sér titilinn með sigri, en Inter skemmdi veisluna.
Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 1-0 Juventus í vil og þær 45 mínútum frá meistaratitlinum en snemma í síðari jafnaði Martina Tomaselli.
Á lokamínútum leiksins komst Juventus aftur yfir, nánar tiltekið á 88. mínútu og þá var titillinn í augnsýn, en í uppbótartíma skoraði Inter tvö mörk, eitt úr vítaspyrnu frá Tessu Wullaert og þá gerði Elisa Polli sigurmarkið á lokasekúndunum.
Sigurinn rann úr greipum Juventus og um leið tókst Inter að saxa forystuna niður í 7 stig þegar fjórir leikir eru eftir af deildinni. Liðin eiga þá eftir að mætast aftur í lokaumferðinni og heldur Inter enn í vonina um að Juventus tapi fleiri stigum fram að því.
Cecilía Rán stóð á milli stanganna í marki Inter og hefur gert frábærlega á þessu timabili en hún er á láni frá Bayern München í Þýskalandi.
Athugasemdir