Bournemouth 1 - 2 Man City
1-0 Evanilson ('21)
1-1 Erling Haaland ('49)
1-2 Omar Marmoush ('63)
1-0 Evanilson ('21)
1-1 Erling Haaland ('49)
1-2 Omar Marmoush ('63)
Bournemouth tók á móti Manchester City í 8-liða úrslitum enska bikarsins og mættu gestirnir frá Manchester inn í leikinn af miklum krafti.
Erling Haaland klúðraði vítaspyrnu og dauðafæri á fyrsta stundarfjórðungi leiksins og refsaði Evanilson með marki fyrir heimamenn skömmu síðar.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn eftir opnunarmark Evanilson en Man City tók völdin í síðari hálfleik, eftir að hinn efnilegi Nico O'Reilly kom inn af bekknum og breytti gangi mála.
O'Reilly, sem leikur sem sókndjarfur miðjumaður að upplagi, kom inn í hálfleik og skapaði strax usla. Haaland klúðraði fyrsta færinu sem O'Reilly bjó til en honum brást ekki bogalistin í seinna skiptið. O'Reilly átti frábæran sprett upp vinstri vænginn og gaf þægilega sendingu á Haaland sem gat ekki klúðrað af stuttu færi.
Omar Marmoush kom inn af bekknum á 61. mínútu og tók forystuna fyrir Man City skömmu síðar, eftir góðan undirbúning frá O'Reilly. Kepa Arrizabalaga í marki Bournemouth átti líklegast að verja lágt skot frá Marmoush sem kom nánast beint á markið, en var alltof lengi að henda sér niður.
Bournemouth tókst ekki að skapa sér færi í seinni hálfleiknum og urðu lokatölur 1-2 fyrir Man City, sem spilar við Nottingham Forest í undanúrslitum á Wembley. Þetta er sjöunda tímabilið í röð sem City kemst í undanúrslit FA bikarsins.
Crystal Palace og Aston Villa eigast við í hinum undanúrslitaleiknum.
Athugasemdir