Liverpool veit verðið á Kerkez - City vill Saliba og Reijnders - Saka í viðræður um nýjan samning
   sun 30. mars 2025 17:05
Brynjar Ingi Erluson
Viðar Ari skoraði og Brynjar með stoðsendingu í fyrsta leik - Birnir og Gísli fengu skell
Viðar Ari og Brynjar Ingi áttu stóran þátt í sigri Ham/Kam
Viðar Ari og Brynjar Ingi áttu stóran þátt í sigri Ham/Kam
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Viðar Ari Jónsson skoraði og Brynjar Ingi Bjarnason lagði upp sigurmarkið er Ham/Kam vann Kristiansund, 2-1, í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Ekki byrjaði það vel fyrir Ham/Kam sem lenti undir eftir aðeins tvær mínútur en leikmenn voru fljótir að hrista það af sér með jöfnunarmarki í næstu sókn.

Viðar Ari hóf sóknina og lauk henni svo með góðu marki. Hann kom löngum bolta fram og var síðan mættur nokkrum sekúndum síðar að teignum til að klára færið eftir hælsendingu frá Julian Gonstad.

Kristian Lien skoraði sigurmark Ham/Kam á 59. mínútu og var það Brynjar Ingi sem lagði það upp. Hann átti langa sendingu inn fyrir á Lien sem afgreiddi boltann í netið.

Frábær byrjun hjá Íslendingunum í Ham/Kam. Stefán Ingi Sigurðarson lagði þá upp eina mark Sandefjord í 3-1 tapi gegn KFUM Oslo. Stefán vann skallaeinvígi og kom boltanum á Sander Mork sem skoraði.

Sveinn Aron Guðjohnsen spilaði síðustu tíu mínúturnar fyrir Sarpsborg sem vann Molde, 2-0, á útivelli.

Íslendingalið Norrköping vann Öster, 4-3, í miklum markaleik í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar, þar sem þeir Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson voru báðir í byrjunarliði Norrköping.

Birnir Snær Ingason byrjaði þá í liði Halmstad sem fékk 5-0 skell gegn Degerfors á heimavelli. Gísli Eyjólfsson kom inn af bekknum fyrir Birni þegar hálftími var eftir.

Galdur Guðmundsson kom þá við sögu í dönsku B-deildinni, en hann kom inn af bekknum á lokamínútunum í 1-0 tapi Horsens gegn Odense. Horsens er í 3. sæti meistarariðilsins með 40 stig, þremur frá sæti í úrvalsdeildina.
Athugasemdir
banner
banner