Andoni Iraola þjálfari Bournemouth svaraði spurningum eftir 1-2 tap Bournemouth á heimavelli gegn Manchester City í 8-liða úrslitum enska bikarsins í dag.
Bournemouth tók forystuna í fyrri hálfleik og leiddi 1-0 þar til í upphafi síðari hálfleiks. Man City snéri stöðunni við eftir leikhlé og urðu lokatölur 1-2.
„Mér fannst við spila fyrri hálfleikinn mjög vel en þeir áttu seinni hálfleikinn frá upphafi til enda. Okkur tókst ekki að halda í við þá eftir leikhlé. Við vorum ekki nógu aggressívir. Það vantaði orku í liðið og sérstaklega í sóknarlínuna, við vorum ekki nógu góðir í seinni hálfleik," sagði Iraola, sem var ósáttur með Kepa Arrizabalaga í sigurmarki Omar Marmoush.
„Kepa átti líklega að verja þetta skot en yfir heildina litið þá töpuðum við ekki útaf þessu marki. Við vorum betra liðið í fyrri hálfleik en ekki í þeim seinni. Okkur tókst ekki að stöðva þá eins og við gerðum í fyrri hálfleik og við sköpuðum ekki nógu mikla hættu. Okkur vantaði líka mikilvæga leikmenn vegna meiðsla og leikbanna, það hjálpaði ekki orkustiginu okkar."
Bournemouth tekur á móti Ipswich á miðvikudaginn í ensku úrvalsdeildinni og heimsækir svo West Ham á laugardeginum. Lærisveinar Iraola sitja í tíunda sæti deildarinnar en eru aðeins þremur stigum frá Evrópusæti og fimm stigum frá Meistaradeildinni í afar þéttum pakka.
Athugasemdir