Arnór Sigurðsson var kátur eftir fyrsta leik sinn með Malmö í efstu deild sænska boltans. Arnór spilaði fyrsta klukkutíma leiksins í 0-1 sigri á útivelli gegn Djurgården í gær, laugardag.
Staðan var markalaus þegar Arnór fékk að líta gult spjald á 45. mínútu eftir átök á miðjum vellinum þar sem Andreas Christiansen, leikmaður Malmö, lá í grasinu með andstæðinga ausandi fúkyrðum yfir sig.
Jens Stryger Larsen og Arnór tóku þetta ekki í mál og komu liðsfélaga sínum til varnar. Þeir uppskáru gul spjöld fyrir en Arnór sér ekki eftir neinu.
„Þeir stóðu yfir AC og sýndu honum vanvirðingu. Þú mátt ekki sýna Anders Christiansen vanvirðingu, ekki þegar ég er að horfa. Ég mætti bara á svæðið og byrjaði að færa leikmenn frá honum. Ég fékk gult spjald fyrir það," sagði Arnór eftir sigurinn.
„Það voru fimm leikmenn sem stóðu yfir honum og horfðu niður á hann, ég varð að skerast í leikinn. Þetta var gula spjaldsins virði."
Arnór var að spila sinn fyrsta deildarleik síðan hann var á mála hjá Blackburn Rovers í ensku Championship deildinni, en þar glímdi hann við mikil meiðslavandræði eftir flotta byrjun.
„Síðustu sex mánuðir hafa verið erfiðir fyrir mig og ég er himinlifandi með að vera kominn aftur á völlinn fyrir framan funheita stuðningsmenn. Ég hef beðið eftir þessu í langan tíma.
„Mér leið vel líkamlega í dag en ég er ekki kominn með fulla snerpu, það eru ýmis atriði sem ég get ennþá bætt. Það mikilvægasta er að við fórum heim með þrjú stig.
„Ég sagði við þjálfarann að ég er tilbúinn til að spila í 90 mínútur ef hann þarf á mér að halda, en mér leið mjög vel með að spila 60 mínútur í dag."
Arnór segist hafa skemmt sér konunglega í sigrinum þrátt fyrir baul andstæðinganna. Malmö vann heppnissigur þar sem heimamenn í liði Djurgården fóru ótrúlega illa með færin sín. Þeir klúðruðu góðum færum en Jens Stryger Larsen skoraði eina mark leiksins seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Athugasemdir