Hákon Rafn Valdimarsson spilaði á dögunum sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni er hann kom inn á sem varamaður hjá Brentford gegn Brighton.
Hákon átti virkilega flotta innkomu og vakti athygli fyrir það hversu rólegur hann er á boltanum.
Hákon átti virkilega flotta innkomu og vakti athygli fyrir það hversu rólegur hann er á boltanum.
Hann var hins vegar kominn aftur á bekkinn gegn Arsenal í gær. Mark Flekken var fljótur að jafna sig af meiðslum og byrjaði leikinn.
„Maður hefði viljað sjá Hákon byrja, alveg klárlega," sagði Hjálmar Aron Níelsson, stuðningsmaður Newcastle, í þættinum.
„Mér fannst Thomas Frank taka ranga ákvörðun. Ekki bara af því Hákon er íslenskur. Hann kom inn með gríðarlega yfirvegun. Þetta er í annað skiptið á leiktíðinni þar sem liðið heldur hreinu. Maður sá það í gær að Flekken lítur ekki vel út í fyrstu tveimur mörkum Arsenal," sagði Magnús Haukur Harðarson.
„Hvort er betra að vera með heilan markvörð með sjálfstraust eða tæpan markvörð? Þegar þú ferð út af þá ertu tæpur. Það liðu ekki margir dagar á milli. Ég held að Thomas Frank hafi skitið í heyið og tekið ranga ákvörðun með þetta," bætti Magnús við.
Janúarglugginn er núna opinn en það er spurning hvort Hákon fari út á láni eða haldi áfram að reyna að komast í liðið hjá Brentford.
„Ég held að það sé fínt að vera í liði sem er í ensku úrvalsdeildinni. Það er fín reynsla," sagði Hjálmar.
„Já og nei. Hann er keyptur af einhverri ástæðu. Ef maður er að lesa í eitthvað án þess að hafa neitt fyrir sér í því, þá er Flekken 32 ára á þessu ári og spurning hvort Hákon taki við af honum á næsta tímabili. Maður veit ekki hvernig samtölin eru á milli Hákonar og Thomas Frank," sagði Magnús.
„Ef hann fer á láni þá gæti ég trúað því að hann sé ekki geirnegldur sem næsti aðalmarkvörður liðsins en ef hann fer ekki á lán þá tel ég að hann verði aðalmarkvörður á næsta tímabili. Þetta eru bara vangaveltur hjá mér."
Það er vonandi að Hákon fái að spila meira sem fyrst því hann hefur sýnt að hann er tilbúinn í þetta.
Athugasemdir