,,En nú erum við a.m.k. búnir að finna botninn og átta okkur á því hvernig hann lítur út, og ég get lofað ykkur því að hann er bæði kaldur og harður! "
,,Hvað svo sem menn segja um sumarið þá verður aldrei hægt að líta fram hjá þeirri tölfræði sem eftir stendur. Við skoruðum vandræðalega lítið af mörkum, að sama skapi fengum við hræðilega mörg mörk á okkur og svo voru það spjöldin sem talin voru í bílförmum. Kannski þar sé kominn ástæðan fyrir spjöldunum á Stebba, hann er jú sá eini sem keyrir vörubíl og getur borið þau....
Næstu daga munu leikmenn liða í Landsbankadeildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Helgi Pétur Magnússon leikmaður ÍA ríður á vaðið með því að koma með pistil í dag.
Kreppa, það er það fyrsta sem manni getur dottið í hug þegar sumarið 2008 er gert upp. Aðstæður urðu bara einfaldlega þannig að gengi okkar skagamanna hríðféll og náði áður óþekktum lægðum. En nú erum við a.m.k. búnir að finna botninn og átta okkur á því hvernig hann lítur út, og ég get lofað ykkur því að hann er bæði kaldur og harður!
Sá kostur fylgir hins vegar botninum að frá honum er hægt að spyrna sér og það er einmitt næst á dagskránni, rífa sig upp úr eymdinni og volæðinu og öðlast aftur réttinn til að spila á þeim stað sem sæmir ÍA liðinu, þ.e.a.s. í efstu deild í baráttu um titla.
Fyrir tímabilið voru þó ekki mörg merki þess að illa ætti eftir að fara, ágætis gengi í deildabikarnum og sigrar í flestum þeim æfingaleikjum sem við tókum þátt í. Það var því búist við okkur í efri hlutanum, enda virtist allt vera í himnalagi. Vegir fótboltans eru aftur á móti órannsakanlegir, svo ekki sé meira sagt.
Við byrjuðum Íslandsmótið illa, en það var nú samt bara byrjunin! Fyrstu leikina náðum við engan vegin að stilla saman strengina, og spilamennskan var á köflum arfaslök. Við þetta má segja að einhvers konar andleysi hafi hellst yfir leikmenn og réðum við illa við það mótlæti sem okkur fannst hrúgast yfir okkur.
Steininn tók þó úr þegar okkur fannst við beittir ranglæti enn og aftur í leik í Vesturbænum, má segja að sú umfjöllun sem fór af stað eftir það hafi skaðað okkur enn þá meira en einstakar ákvarðanir sem teknar voru í þeim leik. Eftir þann leik var litla samúð að fá hjá dómurum deildarinnar, sem eflaust hafa viljað svara fyrir sig, enda fannst þeim eflaust ómaklega að þeim vegið.
Gengið hélt áfram að falla og að lokum kom að því að sá sem við stjórnvölin sat, var látinn víkja. Leikmennirnir höfðu ekki aflað þeim fjölda stiga sem nauðsynlegt var til að Guðjón gæti haldið áfram og því var lítið annað í stöðunni enn að róa á önnur mið, sem reyndar voru ekki með öllu ný. A og B tóku því við og fengu það verðuga verkefni að rífa liðið upp og bjarga því í annað skiptið á þremur tímabilum. Þrátt fyrir að spila oft á tíðum vel var það ekki nóg, stigin komu ekki í því magni sem áætlanir stóðu til og því var það niðurstaðan að við féllum.
Hvað svo sem menn segja um sumarið þá verður aldrei hægt að líta fram hjá þeirri tölfræði sem eftir stendur. Við skoruðum vandræðalega lítið af mörkum, að sama skapi fengum við hræðilega mörg mörk á okkur og svo voru það spjöldin sem talin voru í bílförmum. Kannski þar sé kominn ástæðan fyrir spjöldunum á Stebba, hann er jú sá eini sem keyrir vörubíl og getur borið þau....
Að lokum vill ég þakka stuðningsmönnum okkar fyrir þeirra framlag, því þeir hópuðust á leiki með okkur þó að gengið væri hræðilegt og reyndu hvað þeir gátu til þess að rífa okkur upp. Þeir eiga heiður skilinn fyrir sitt framlag og vona ég að við, leikmennirnir, getum launað þeim þeirra framlag sem allra fyrst!
Kv. Helgi Pétur Magnússon #6
Athugasemdir