Heimild: KFS
Í gær lést Steingrímur Jóhannesson á 39. aldursári eftir harða baráttu við krabbamein. Þessi mikli markahrókur frá Vestmannaeyjum skoraði 72 mörk í 189 leikjum í efstu deild.
Langstærstan hluta ferilsins lék hann með ÍBV en auk þess lék hann tvö tímabil með Fylki í Árbænum í efstu deild og varð bikarmeistari með liðinu.
Hann lék með Selfossi í 2. deildinni 2006 og lék svo sinn síðasta mótsleik á Íslandsmóti með KFS í Vestmannaeyjum sumarið 2008 í 3. deildinni.
Hans besta tímabil var sumarið 1998 þegar hann skoraði 16 mörk í 17 leikjum í efstu deild tímabil sem ÍBV vann bæði Íslandsmeistaratitilinn og bikarkeppnina
Um áramótin var haldið styrktarmót Steingríms í Vestmannaeyjum þar sem á þriðja hundrað manns, fullorðnir og börn, léku knattspyrnu og annar eins fjöldi áhorfenda fylgdist með.
Steingrímur lék einn A-landsleik, vináttuleik við Suður-Afríku 1998.
Fótbolti.net sendir fjölskyldu og vinum Steingríms innilegar samúðarkveðjur.