Freyr Alexandersson og Davíð Snorri Jónasson hafa tekið við þjálfun meistaraflokks Leiknis en það var tilkynnt í Leiknisheimilinu rétt í þessu. Þessir ungu þjálfarar eru báðir uppaldir Leiknismenn.
Freyr er fæddur 1982 og lét á dögunum af störfum sem aðstoðarþjálfari Kristjáns Guðmundssonar hjá Val. Auk þess hefur hann þjálfað meistaraflokk kvenna hjá Val með góðum árangri.
Freyr er fyrrum leikmaður Leiknis og var á sínum tíma fyrirliði liðsins.
Davíð Snorri er fæddur 1987 og hefur þjálfað yngri flokka hjá Leikni auk þess sem hann hefur verið í þjálfarateymi meistaraflokks. Hann stýrði liðinu ásamt Gunnari Einarssyni í lokaleikjum nýliðins tímabils þar sem það vann alla þrjá leiki sína og bjargaði sér naumlega frá falli.
Munu þeir vera jafnir saman sem aðalþjálfarar og munu einnig taka að sér afreksþjálfun fyrir efnilegustu leikmenn félagsins.
Athugasemdir