Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   þri 10. júní 2014 15:30
Alexander Freyr Tamimi
Bestur í 1. deild: Vorum fyrst að safna í 11 manns
Leikmaður 5. umferðar: Magnús Bernhard Gíslason (KV)
Magnús Bernhard er leikmaður 5. umferðar.
Magnús Bernhard er leikmaður 5. umferðar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Magnús skoraði tvö mörk gegn Grindavík.
Magnús skoraði tvö mörk gegn Grindavík.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Stemningin hjá KV er góð.
Stemningin hjá KV er góð.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Magnús Bernhard Gíslason, sóknarmaður KV, er leikmaður fimmtu umferðarinnar í 1. deildinni að mati Fótbolta.net eftir 3-2 sigur Vesturbæjarliðsins gegn Grindavík í gær.

Magnús Bernhard kom inn á í hálfleik og skoraði tvö mörk fyrir KV og hjálpaði þeim að landa sínum öðrum sigri í röð eftir erfiða byrjun.

„Við vorum eiginlega með allt niður um okkur fyrstu leikina og erum búnir að stíga vel upp. Við erum búnir að fá nokkra stráka til baka frá útlöndum og vorum í smá meiðslaveseni í byrjun tímabilsins. Nú erum við með breiðari og sterkari hóp og komnir með meira sjálfstraust, og byrjaðir að spila betri bolta,“ sagði Magnús við Fótbolta.net.

Allt annað líf að vera í Laugardalnum
Magnús var ánægður með frammistöðu sína og segist hafa fengið frjálsa rullu frammi á meðan liðsfélagar hans sáu um erfiðisvinnuna.

„Ég var mjög sáttur. Ég fékk að koma inn á og eiginlega bara hanga frammi á meðan þeir á miðjunni og í vörninni voru að berjast eins og ljón. Það hentaði bara rosalega vel,“ sagði Magnús.

„Þetta var virkilega flottur sigur. Grindavík er með mjög gott lið og munurinn var eiginlega bara sá að við nýttum okkar færi. Þeir hefðu getað skorað nokkur mörk þarna en við náðum að halda þessu.“

KV spilaði sinn fyrsta heimaleik á gervigrasinu í Laugardal eftir að hafa spilað í Egilshöll til að byrja með og tekur Magnús breytingunni fagnandi.

„Þetta er bara hrikalega flott, þetta er allt annað líf að vera þarna og við erum virkilega þakklátir Þrótturum að fá að vera þarna. Við vorum orðnir svolítið þreyttir á að vera inni og okkur var að ganga illa í Egilshöllinni. Þetta er frábært,“ sagði Magnús, sem segir KV-menn þó ekki hafa örvænt yfir erfiðri byrjun.

„Ég held að við höfum allir verið rólegir. Þessir fyrstu leikir voru svosum 50/50 leikir og það vantaði bara herslumuninn hjá okkur. Ég held að það hafi aldrei verið neitt stress og við hefðum getað fengið mun fleiri stig úr þessum fyrstu leikjum. Við vorum bara óheppnir en vorum ekkert að stressa okkur.“

Byrjaðir að skilja sterka leikmenn eftir utan hóps
KV er nú komið með sjö stig og hefur tekið stökk upp um nokkur sæti, en Magnús segir þó að liðið hafi ekki sett sér nein ákveðin markmið.

„Við erum svosum ekkert búnir að ræða þetta saman. Hingað til hefur þetta bara verið einn leikur í einu og við reynum að gera okkar besta í hverjum leik. Við erum mjög lítið að pæla í þessu og höfum allavega ekki tekið neinn fund um þetta,“ sagði Magnús.

KV er búið að skora flest mörk í deildinni, 12 talsins, og fá á sig 8. Magnús segir að liðið reyni að spila skemmtilegan fótbolta.

„Við reynum alltaf að spila eins mikinn sóknarbolta og við getum hverju sinni. Við erum ekkert að koma í deildina og pakka í vörn, þetta er miklu skemmtilegara svona,“ segir Magnús, sem kann vel við stemninguna innan KV.

„Þetta eru bara allt góðir félagar þarna, ungir strákar og metnaðarfullir. Við erum ekkert eitthvað að missa okkur yfir hlutunum, ef við töpum einum og einum leik reynum við bara að gera betur næst. Þetta er rosalega gaman, þetta er allt annað núna en þetta var fyrst. Fyrst vorum við bara að safna í 11 manns en núna erum við byrjaðir að skilja virkilega sterka leikmenn eftir utan hóps. Þetta er allt annar pakki í dag.“

Sjá einnig:
Leikmaður 4. umferðar: Tómas Agnarsson (KV)
Leikmaður 2. umferðar - Óttar Bjarni Guðmundsson (Leiknir R)
Leikmaður 1. umferðar - Vilhjálmur Pálmason (Þróttur)
Athugasemdir
banner
banner
banner