fim 03.apr 2025 16:26 Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir |
|

Þetta eru tíu bestu leikmenn Bestu deildarinnar
Það eru aðeins tveir dagar í það að Besta deildin fari af stað. Á laugardaginn verður flautað til leiks og er eftirvæntingin mikil.
Við á Fótbolta.net höfum verið að hita vel upp fyrir deildina síðustu daga og vikur. Á undanförnum dögum hafa fréttamenn síðunnar kosið um tíu bestu leikmenn deildarinnar að þeirra mati. Svo sannarlega ekki auðvelt en skemmtilegt að velta þessu fyrir sér og úr skapast umræða.
Núna er útkoman klár. Það var svolítið bil á milli manna í kosningunni. Flestir voru sammála um tvo bestu leikmenn deildarinnar en þó var ekki mikill munur á milli þeirra tveggja. Efstu fimm fengu mjög góða kosningu hjá fréttamönnum og var svolítið afgerandi hverjir fimm bestu væru, en svo var spenna eftir það um sæti sex til tíu.
Hér fyrir neðan má sjá útkomuna í þessari kosningu þegar stutt er í mót.
Gylfi Þór Sigurðsson er besti leikmaður Bestu deildarinnar að mati Fótbolta.net.
Mynd/Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
10. Anton Logi Lúðvíksson (Breiðablik)
Anton Logi er kominn aftur heim í Kópavoginn eftir að hafa leikið með Haugesund í Noregi í eitt tímabil. Strákur fæddur árið 2003 sem beið rólegur eftir því að fá sénsinn með Blikum en hann kom sumarið 2022 eftir að hann hafði farið á láni til Aftureldingar tímabilið áður. Hann hjálpaði Blikum að taka Íslandsmeistaratitilinn 2022 og var svo stórkostlegur með liðinu í Sambandsdeildinni árið eftir.
Afar öflugur miðjumaður sem líður líklega best í sexunni. Hann getur einnig leyst það að spila í miðverði og í bakverði. Með frábæra yfirsýn, góða tækni og er gríðarlega yfirvegaður.
9. Ingvar Jónsson (Víkingur R.)
Ingvar er besti markvörður Bestu deildarinnar að mati fréttamanna Fótbolta.net. Var á sínum tíma besti leikmaður Íslandsmótsins þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari og fór í gegnum mótið taplaust. Hann átti svo flottan feril erlendis og var hluti af markvarðarteymi A-landsliðsins. Ingvar hefur svo síðustu ár verið algjör lykilmaður í mönguðum árangri Víkinga. Hann virðist alltaf vera sérstaklega góður í Evrópu.
Ingvar er stórkostlegur alhliða markvörður sem getur leyst flest þau verkefni sem hann fær í hendurnar. Hann skrifaði nýverið undir nýjan samning í Víkinni og eru það frábærar fréttir fyrir stuðningsmenn Víkinga.
8. Oliver Ekroth (Víkingur R.)
Nýr fyrirliða Víkinga kemst á listann en hann er ekki síðasti leikmaður Víkinga á listanum. Ekroth er 33 ára sænskur miðvörður sem hefur verið hjá Víkingi síðan 2022 og hjálpað liðinu að vinna titla undanfarin ár. Hann og Gunnar Vatnhamar hafa án efa myndað besta miðvarðapar íslenska boltans síðustu ár, eru frábærir saman. Ekroth átti erfitt uppdráttar á sinni fyrstu leiktíð á Íslandi en er núna á leið inn í sitt fjórða tímabil hér á landi og honum líður afskaplega vel í Víkingi.
Hann er besti varnarmaðurinn í deildinni samkvæmt þessum lista. Er ótrúlega harður í horn að taka og sóknarmönnum deildarinnar líður eflaust ekkert alltof vel með það að mæta honum.
7. Hallgrímur Mar Steingrímsson (KA)
Það er himinn og haf á milli leiks KA með Hallgrím Mar í liðinu og án hans. Það sá bersýnilega í byrjun síðasta tímabils þegar Grímsi var frá vegna veikinda. Það lifnaði yfir sóknarleiknum þegar hann mætti til baka. Hefur skilað stórkostlegum tölum fyrir KA síðustu ár og það á að reisa styttu af honum fyrir utan KA-heimilið þegar hann leggur skóna á hilluna.
Er með rosalega mikið í sínum leik og það sem er best við hann er það að hann skilar alltaf fullt af mörkum og stoðsendingum. Er með frábæra tækni og gríðarlega leikskilning. Hann gerir leikmennina í kringum sig betri.
Grímsi er eini leikmaðurinn úr liðunum sem er spáð í neðri hlutann sem kemst á þennan lista.
6. Jónatan Ingi Jónsson (Valur)
Jónatan, sem er afar öflugur kantmaður, kom aftur í Bestu deildina fyrir tímabilið í fyrra og það voru margir að spyrja sig 'af hverju?' svo var. Hann var búinn að spila vel í Noregi með Sogndal en hann ákvað að koma heim og hefur gert mjög vel á Hlíðarenda. Einn af nokkrum - ekki mörgum - leikmönnum Vals sem getur haldið höfðinu hátt eftir tímabilið í fyrra.
Með mikla tækni og gífurlegan hraða sem varnarmenn Bestu deildarinnar eiga erfitt með að eiga við. Sóknarlínan í Val er sterk og Jónatan er stór hluti af því. Leikmaður sem gæti klárlega verið að spila annars staðar en á Íslandi.
5. Patrick Pedersen (Valur)
Þá erum við komin í topp við og í fimmta sæti er danski markahrókurinn sem hefur spilað nánast samfleytt með Val frá 2013. Hann skilar alltaf sínum mörkum en hann tók skref fram á við í fyrra eftir að það hafði aðeins hægst á honum. Honum líður greinilega mjög vel á Íslandi en hann er samt sem áður ákveðinn huldumaður þar sem hann er ekki mikið fyrir athyglina.
Patrick varð í fyrra sjötti leikmaðurinn til að skora yfir 100 mörk í efstu deild karla á Íslandi en hann er sá erlendi leikmaður sem hefur skorað flest mörk í efstu deild. Það er spurning hvort að þessi stórkostlegi markaskorari nái í sumar að bæta metið yfir flest mörk skoruð í efstu deild en Tryggvi Guðmundsson á það met í dag. Hann vantar 15 mörk í að jafna það.
4. Aron Sigurðarson (KR)
„Það besta frá mínu sjónarhorni er að stundum þegar leikmenn koma aftur til Íslands eftir að hafa spilað erlendis, þá koma þeir eiginlega bara til að slaka á. Það er alls ekki málið með Aron. Hann er á besta aldri og gæti enn spilað í dönsku úrvalsdeildinni," sagði Gregg Ryder, þáverandi þjálfari KR, um Aron þegar hann gekk til liðs við KR fyrir síðustu leiktíð.
Aron sýndi það á köflum á síðasta tímabili að hann væri með gæði til að spila enn í dönsku úrvalsdeildinni. Hann var besti leikmaður KR á síðustu leiktíð og gat tekið yfir leiki með öllum þeim gæðum sem hann býr yfir.
Núna eru væntingar fyrir því að KR komist aftur í efri hlutann en til þess að það gerist, þá þarf Aron að eiga frábært tímabil. Hann er orðinn fyrirliði í Vesturbænum og ábyrgðin er mikil á þessum frábæra leikmanni.
3. Aron Elís Þrándarson (Víkingur R.)
Það var mikill happafengur fyrir Víkinga að fá Aron Elís heim úr atvinnumennsku sumarið 2023. Hann kom heim sem aðeins öðruvísi leikmaður, var orðinn djúpur miðjumaður úti og hefur leyst bæði að vera djúpur og sóknarsinnaður fyrir Víkinga. Stundum er hann bara í fremstu víglínu. Það er gríðarlegur styrkleiki hvað hann er sterkur í loftinu og hefur það skilað ófáum mörkum.
Aron hefur verið svolítið meiddur eftir að hann kom heim en þegar hann er heill, þá er hann fáránlega góður fyrir þessa deild. Hann gæti klárlega enn leikið úti og átti flottan feril í atvinnumennsku þar sem hann lék lengi í dönsku og norsku úrvalsdeildinni.
2. Höskuldur Gunnlaugsson (Breiðablik)
Fyrirliði Breiðabliks var valinn leikmaður mótsins í fyrra þegar Breiðablik varð Íslandsmeistari. Hann var færður inn á miðsvæðið þegar leið á mótið og það var í raun stóra ástæðan fyrir því að Breiðablik varð meistari. Leikmaður sem er með fáránleg gæði, ótrúlega yfirvegaður og með leikskilning í hæsta gæðaflokki hér á landi. Hefur einnig spilað sem bakvörður og kantmaður á sínum ferli, en hann virðist vera bestur inn á miðsvæðinu.
Á síðasta tímabili var kallað eftir því að hann væri í landsliðinu og það var ekkert svo galið. Er kominn á fertugsaldur en Brann, sem var næst besta liðið í Noregi í fyrra, reyndi að kaupa hann í vetur. Það segir svolítið mikið; er að topp á ferlinum á réttum tíma.
Ekki bara frábær fótboltamaður, líka einn besti persónuleikinn í þessari deild. Með hjarta úr gulli.
1. Gylfi Þór Sigurðsson (Víkingur R.)
Á toppi listans trónir svo Gylfi Þór Sigurðsson, sem var fyrir stuttu keyptur til Víkinga frá Val á metfé. Hann er dýrasti leikmaður í sögu íslenska boltans þrátt fyrir að vera orðinn 35 ára gamall. Og hann er besti leikmaður deildarinnar samkvæmt bæði leikmönnum deildarinnar og fréttamönnum Fótbolta.net.
Gylfi er besti- og markahæsti leikmaður landsliðsins í sögunni. Hann hafði verið hjá Val í tæplega ár áður en hann vildi skipti yfir í Víking. Hans stóra markmið er að vinna Íslandsmeistaratitilinn áður en ferlinum lýkur.
Hann skoraði 11 mörk í 19 leikjum á síðasta tímabili og var í liði tímabilsins. Fyrir komandi sumar eru gerðar enn meiri væntingar til þessa fyrrum leikmanns Everton, Tottenham og Swansea.
Athugasemdir