Tryggvi Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net, skoraði margar þrennur á ferlinum og í sumar er hann með þrennuna eftir hverja umferð í Pepsi-deildinni. Þar tekur Tryggvi fyrir þrjú málefni sem brenna á honum.
Hér má sjá það sem vakti athygli Tryggva í áttundu umferðinni en fyrsta málefnið tengist syni hans, Guðmundi Andra Tryggvasyni, sem krækti í umdeilda vítaspyrnu fyrir KR.
Hér má sjá það sem vakti athygli Tryggva í áttundu umferðinni en fyrsta málefnið tengist syni hans, Guðmundi Andra Tryggvasyni, sem krækti í umdeilda vítaspyrnu fyrir KR.
Stutt milli þess að vera hetja og skúrkur
Ég er ekki hrifinn af því að vera að tala um son minn hérna en þetta víta-atvik er helsta umræðuefnið eftir gærkvöldið. Ég var sjálfur skítsmeykur við að það væri verið að fara að dæma dýfu á hann og hann fengi sitt annað gula og þar með rautt nýkominn inn sem varamaður. Það er rosalega stutt á milli þess að vera hetja eða skúrkur í þessu. Þegar upp er staðið nælir hann í víti og reddar mikilvægu stigi fyrir KR. Ég ætla ekki sjálfur að dæma um það hvort þetta hafi verið víti eða ekki en þeir menn sem voru mest innblandaðir í atvikið segja víti.
Hrós á dómarana í Ólafsvík
Davíð Snorri aðstoðarþjálfari Stjörnunnar missti sig og ég veit alveg hvað flaug í gegnum hausinn á honum. Það er þekkt að í Ólafsvík eru hróp og köll af bekknum. Davíð tók þennan trylling en sá að sér þegar hann róaðist aðeins. Hann sagði engin ljót orð en sagði bekknum að leyfa dómaranum að vinna sína vinnu. Ég hrósa fjórða dómaranum og aðaldómaranum sem virðast hafa tekið þá ákvörðun saman að leyfa mönnum að sýna ástríðu og gefa þeim færi á að róa sig aðeins. Það þarf ekki alltaf að henda mönnum upp í stúku.
Allir geta unnið alla
Það hafa nánast öll liðin komið á óvart, hvort sem það er á neikvæðan eða jákvæðan hátt. KR og FH koma helst í hugann á neikvæðan hátt, hvort lið bara með tvo sigra sem er með ólíkindum. Nýliðarnir hafa komið skemmtilega á óvart. Spurningin er bara hvort Valur muni stinga af ef liðið heldur áfram þessu skriði og Leicester-ævintýri Grindavíkur muni stranda. Þó að við spekingarnir sem spáðum fyrir mót lítum illa út núna þá fagna ég því hvernig deildin er að spilast!
Athugasemdir