Freyr Alexandersson sem er hér hægra megin á myndinni tekur einn við þjálfun kvennaliðs Vals en Elísabet sem er vinstra megin er hætt.
Freyr Alexandersson hefur gert samning við Val um að þjálfa kvennalið félagsins næstu þrjú árin. Þetta staðfesti Ótthar Edvardsson yfirmaður afrekssviðs hjá félaginu í samtali við Fótbolta.net í dag.
Freyr var annar tveggja þjálfara Vals í sumar en hann stýrði liðinu með Elísabetu Gunnarsdóttur sem tilkynnti fyrr í vikunni að hún væri hætt hjá félaginu eftir fimm ár í starfi.
Undir stjórn Elísabetar og Freys urðu Valskonur Íslandsmeistarar í sumar auk þess að komast í úrslitaleik bikarsins og í milliriðla í Evrópukeppni kvenna þar sem liðið lék sinn síðasta leik á þriðjudag.
Eftir leikinn á þriðjudag tilkynnti Elísabet að hún væri hætt í starfinu og samningur Freys var einnig úti. Nú er ljóst að Freyr mun stýra liðinu áfram næstu þrjú árin.
Athugasemdir