Guðjón Ernir Hrafnkelsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við KA. Guðjón er 23 ára gamall bakvörður sem hefur verið mikilvægur hlekkur í liði ÍBV síðustu fimm ár en rann út á samningi eftir síðustu leiktíð.
Guðjón er uppalinn fyrir austan hjá Hetti og lék hann sína fyrstu meistaraflokksleiki sumarið 2017 með liði Hattar og síðar með hinu sameiginlega liði Höttur/Huginn. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann nú þegar leikið 192 KSÍ leiki með meistaraflokk (þar af 163 í deild og bikar) og gert í þeim 7 mörk þó hann leiki sem bakvörður.
Guðjón æfði með Val í vetur en er nú búinn að skrifa undir fyrir norðan.
„Það eru spennandi tímar framundan hjá bikarmeisturum KA þar sem liðið leikur í Evrópukeppni í sumar auk þess sem það styttist í vígslu nýs keppnisvallar á KA-svæðinu. Við ætlum okkur áfram stóra hluti og er koma Guðjóns hingað norður svo sannarlega stór hluti af þeirri vegferð. Við bjóðum Guðjón velkominn norður og hlökkum til að fylgjast með honum í gula og bláa búningnum," segir á heimasíðu KA.
Athugasemdir