Liverpool býður Trent væna launahækkun - PSG og Villa gætu skipst á leikmönnum - Zirkzee vill fara frá Man Utd
   fös 03. janúar 2025 21:02
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Frábær endurkoma Milan gegn Juventus
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Juventus 1 - 2 Milan
1-0 Kenan Yildiz ('21)
1-1 Christian Pulisic ('71, víti)
1-2 Federico Gatti ('76, sjálfsmark)

Juventus og AC Milan mættust í undanúrslitaleik ítalska Ofurbikarsins í kvöld og úr varð hörkuleikur, eftir að Inter lagði Atalanta að velli í undanúrslitaleik gærkvöldsins.

Juve byrjaði leikinn betur og tók forystuna á 21. mínútu með góðu marki frá Kenan Yildiz eftir frábæran undirbúning frá Samuel Mbangula. Yildiz slapp framhjá Theo Hernández og gerði vel að klára með marki.

Leikurinn var tíðindalítill þar til í síðari hálfleik, þegar Milan tók að sækja meira og leikmenn Juventus byrjuðu að gera slæm mistök. Fyrst fékk Milan dæmda vítaspyrnu þegar tveir leikmenn Juve brutu af sér innan vítateigs með stuttu millibili og skoraði Christian Pulisic úr vítaspyrnu. Michele Di Gregorio var í boltanum en spyrnan of föst og endaði boltinn í netinu.

Fimm mínútum síðar tók Milan forystuna eftir auðvelt uppspil þar sem vörn Juve galopnaðist með tveimur sendingum við misheppnaða hápressu. Yunus Musah slapp innfyrir og gaf boltann fyrir en Federico Gatti komst fyrir boltann, sem skoppaði af honum og í netið þar sem Di Gregorio var kominn langt af marklínunni og kom engum vörnum við.

Juve reyndi að sækja sér jöfnunarmark á lokakaflanum og setti Milan undir þunga pressu en tókst ekki að skora. Lokatölur urðu því 1-2 fyrir Milan, sem mætir nágrönnum sínum Inter í úrslitaleik Ofurbikarsins.

Ítalski Ofurbikarinn fer fram í Sádi-Arabíu og verður úrslitaleikurinn leikinn næsta mánudagskvöld.
Athugasemdir
banner
banner