Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 01. nóvember 2022 19:56
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Atlético Madríd fer ekki í Evrópudeildina
Atlético Madríd er úr leik
Atlético Madríd er úr leik
Mynd: EPA
Bayer Leverkusen tekur sætið í Evrópudeildinni
Bayer Leverkusen tekur sætið í Evrópudeildinni
Mynd: EPA
Atlético Madríd mun ekki spila í úrslitakeppni Evrópudeildarinnar á þessu tímabili en það varð ljóst eftir að liðið tapaði fyrir Porto, 2-1, í kvöld. Leverkusen mun taka sætið í Evrópudeildinni.

Club Brugge og Porto tryggðu sig í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í síðustu viku og var því baráttan um þriðja sætið á milli Atlético og Leverkusen.

Atlético lenti undir snemma leiks gegn Porto. Mehdi Taremi skoraði eftir fyrirgjöf frá Evanilson á 5. mínútu. Heimamenn gerðu sig líklega til að bæta við öðru stuttu síðar en Jan Oblak varði boltann meistaralega með löppunum.

Hann gat þó ekki komið í veg fyrir annað mark Porto á 24. mínútu leiksins eftir frábæra sókn. Galeno keyrði með boltann inn í teiginn, kom honum fyrir á Stephen Eustaquio sem skoraði með góðu skoti.

Bæði lið sköpuðu sér fullt af færum í síðari hálfleiknum en mark Atlético kom ekki fyrr en undir lokin er Ivan Marcano kom boltanum í eigið net eftir fyrirgjöf Yannick Carrasco.

Lokatölur 2-1 og er það Porto sem er sigurvegari B-riðils. Á meðan gerðu Club Brugge og Bayer Leverkusen markalaust jafntefli og þýðir það að Leverkusen hafnar í 3. sæti og fer í úrslitakeppni Evrópudeildarinnar en Atlético hefur lokið keppni. Bæði lið enduðu með 5 stig en Leverkusen hafði betur í innanbyrðis viðureignum.

Úrslit og markaskorarar:

Porto 2 - 1 Atletico Madrid
1-0 Mehdi Taremi ('5 )
2-0 Stephen Eustaquio ('24 )
2-1 Ivan Marcano ('90 , sjálfsmark)

Bayer 0 - 0 Club Brugge
Athugasemdir
banner
banner
banner