Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   þri 01. nóvember 2022 22:08
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Tottenham í 16-liða úrslit - Liverpool fyrsta liðið til að vinna Napoli
Tottenham er komið áfram
Tottenham er komið áfram
Mynd: EPA
Eintracht Frankfurt fylgir Tottenham upp úr D-riðlinum
Eintracht Frankfurt fylgir Tottenham upp úr D-riðlinum
Mynd: EPA
Ferran Torres og Raphinha leyfðu sér að brosa í sigri á Plzen
Ferran Torres og Raphinha leyfðu sér að brosa í sigri á Plzen
Mynd: EPA
Liverpool er fyrsta liðið til að vinna Napoli á tímabilinu
Liverpool er fyrsta liðið til að vinna Napoli á tímabilinu
Mynd: EPA
Tottenham Hotspur er komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa unnið 2-1 sigur á Marseille á Vélodrome-leikvanginum í Marseille í kvöld. Liverpool varð þá fyrsta liðið á tímabilinu til að vinna Napoli en Mohamed Salah og Darwin Nunez sáu til þess.

Staðan var ansi flókin í D-riðli Meistaradeildarinnar fyrir lokaumferðina í kvöld en eitt er víst að Tottenham þurfti að minnsta kosti stig til að tryggja sig áfram.

Antonio Conte, stjóri liðsins, var í stúkunni eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik fyrir að urða yfir dómarateymið, en hans menn áttu enga draumabyrjun í kvöld.

Marseille skapaði sér færin í fyrri hálfleiknum og þurfti Hugo Lloris að vera vel vakandi. Ekki batnaði það fyrir Tottenham er Heung-Min Son fékk þungt höfuðhögg á 23. mínútu og þurfti að fara af velli.

Franska liðið náði forystunni undir lok fyrri hálfleiksins eftir vel útfærða hornspyrnu. Jordan Veretout kom boltanum fyrir markið og var það Chancel Mbemba sem skallaði boltann í netið.

Tottenham tók við sér í þeim síðari. Ivan Perisic tók aukaspyrnu beint á kollinn á Clement Lenglet sem jafnaði metin með góðum skalla.

Harry Kane, fyrirliði Tottenham, fékk höfuðhögg líkt og Son um miðjan síðari hálfleikinn, en jafnaði sig og hélt leik áfram.

Danski miðjumaðurinn Pierre-Emile Hobjerg gulltryggði Tottenham áfram í 16-liða úrslitin eftir sendingu frá Harry Kane og lokatölur 2-1. Tottenham vinnur riðilinn með 11 stig og verður það Eintracht Frankfurt sem fylgir þeim í 16-liða úrslit eftir að liðið vann Sporting, 2-1, í Portúgal.

Fyrsta tap Napoli á tímabilinu

Liverpool varð í kvöld fyrsta liðið til að vinna Napoli á þessu tímabili er liðið hafði 2-0 sigur á Anfield.

Heimamenn voru hættulegri aðilinn í fyrri hálfleiknum. Thiago átti fínasta skot sem Alex Meret varði og þá kom Curtis Jones sér tvisvar í góða stöðu en boltinn yfir í bæði skiptin.

Napoli kom boltanum í netið í upphafi síðari hálfleiks. Kvicha Kvarskhelia átti aukaspyrnu inn í teiginn og varð það norski leikmaðurinn Leo Ostigård sem kom boltanum í netið. Markið var hins vegar dæmt af vegna rangstöðu.

Gestirnir sköpuðu sér nokkur ágætis færi eftir það en fengu blauta tusku í andlitið þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum er Salah skoraði fyrir Liverpool. Darwin Nunez stýrði hornspyrnu Kostas Tsimikas á markið og náði Meret að koma í veg fyrir að boltinn færi inn, en þó aðeins í fáeinar sekúndur því Salah náði frákastinu og kom Liverpool yfir.

Liverpool bætti við öðru marki seint í uppbótartíma. Aftur var það hornspyrna inn í teiginn og stökk Virgil van Dijk hæst og stangaði boltann á markið. Meret varði boltann til hliðar áður en Nunez potaði honum inn.

Lokatölur 2-0 fyrir Liverpool sem er fyrsta liðið til að vinna Napoli á þessu tímabili. Tapið hefur þó ekki áhrif á stöðu Napoli sem vinnur riðilinn á innanbyrðisviðureignum gegn LIverpool.

Ajax lagði Rangers að velli, 3-1, í sama riðli. Steven Berghuis, Mohammed Kudus og Francisco Conceicao gerðu mörk Ajax sem fer í Evrópudeildina.

Í C-riðli vann Barcelona 4-2 sigur á Viktoria Plzen í leik sem skipti svosem ekki miklu máli. Ferran Torres skoraði tvö fyrir Barcelona og Raphinha lagði þá upp tvö. Barcelona fer í Evrópudeildina á meðan Plzen er úr leik.

Í sama riðli kláraði Bayern München riðilinn með fullt hús stiga eftir að hafa unnið Inter 2-0. Benjamin Pavard og Eric Choupo-Moting skoruðu mörk heimamanna sem hafa farið hamförum í riðlinum.

Úrslit og markaskorarar:

A-riðill:

Liverpool 2 - 0 Napoli
1-0 Mohamed Salah ('85 )
2-0 Darwin Nunez ('90 )

Rangers 1 - 3 Ajax
0-1 Steven Berghuis ('4 )
0-2 Mohammed Kudus ('29 )
1-2 James Tavernier ('87 , víti)
1-3 Chico Conceicao ('89 )

C-riðill:

Bayern 2 - 0 Inter
1-0 Benjamin Pavard ('32 )
2-0 Eric Choupo-Moting ('72 )

Plzen 2 - 4 Barcelona
0-1 Marcos Alonso ('6 )
0-2 Ferran Torres ('44 )
1-2 Tomas Chory ('51 , víti)
1-3 Ferran Torres ('54 )
2-3 Tomas Chory ('63 )
2-4 Pablo Torre Carral ('75 )

D-riðill:

Sporting 1 - 2 Eintracht Frankfurt
1-0 Arthur Gomes ('39 )
1-1 Daichi Kamada ('62 , víti)
1-2 Randal Kolo Muani ('72 )

Marseille 1 - 2 Tottenham
1-0 Chancel Mbemba ('45 )
1-1 Clement Lenglet ('54 )
1-2 Pierre-Emile Hojbjerg ('90 )
Athugasemdir
banner
banner
banner