Þessir eru á óskalista Man Utd - Tilboði Arsenal í Calafiori hafnað - Barcelona vill Olmo
   þri 02. júlí 2024 14:54
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Græt meira þegar ég hugsa um þetta fólk heldur en þegar ég er í sjálfsvorkunn"
Olla er 21 árs framherji sem hefur skorað 61 mark í 104 KSÍ leikjum.
Olla er 21 árs framherji sem hefur skorað 61 mark í 104 KSÍ leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað með liði Harvard í vetur. Hún fékk skólastyrk í fyrra og kláraði sitt fyrsta ár í vor.
Marki fagnað með liði Harvard í vetur. Hún fékk skólastyrk í fyrra og kláraði sitt fyrsta ár í vor.
Mynd: Phil Tor - Harvard
Olla er uppalin hjá Val en fékk fyrsta almennilega sénsinn í efstu deild hjá Þrótti. Árið 2019 var hún í hálft ár með ÍA í Lengjudeildinni.
Olla er uppalin hjá Val en fékk fyrsta almennilega sénsinn í efstu deild hjá Þrótti. Árið 2019 var hún í hálft ár með ÍA í Lengjudeildinni.
Mynd: Breiðablik
Fer í aðgerð á föstudaginn.
Fer í aðgerð á föstudaginn.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Það verður smá sárt að vita að maður getur ekki spilað með, en þetta er svo ótrúlega góður hópur og ég hef ekki áhyggjur af þeim þó svo að ég verði ekki með.'
'Það verður smá sárt að vita að maður getur ekki spilað með, en þetta er svo ótrúlega góður hópur og ég hef ekki áhyggjur af þeim þó svo að ég verði ekki með.'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Bauð Ollu Siggu að fá sinn tíma í aðgerð.
Bauð Ollu Siggu að fá sinn tíma í aðgerð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þá myndu það vera svo mikil vonbrigði ef maður næði því ekki'
'Þá myndu það vera svo mikil vonbrigði ef maður næði því ekki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er vissara að taka tíma í endurhæfinguna'
'Það er vissara að taka tíma í endurhæfinguna'
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Ég ætla líta á þetta sem tækifæri, hef ár til þess að vinna í styrk á báðum fótum, höfðinu og líkamanum í heild. Mig langar að koma sterkari til baka og nýta þetta sem tækifæri."

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, sem verður kölluð Olla hér eftir í þessari grein, fékk þau slæmu tíðindi í síðustu viku að hún hefði slitið krossband í leik með Breiðabliki.

Landsliðskonan spilar ekki meira á þessu tímabili og verður frá fram á næsta sumar. Framherjinn ræddi við Fótbolta.net í gær.

Fékk símtal í vinnunni
„Þessir fyrstu dagar hafa verið frekar skrítnir, margar tilfinningar og farið upp og niður, algjör tilfinningarússíbani," sagði Olla.

„Ég hugsaði ekki að þetta væri slitið krossband. Ég heyrði smell, en ég hélt ég hefði bara farið í yfir réttu. Svo þegar ég sé myndband af þessu þá lítur þetta ekkert alltof vel út. Á meðan ég vissi ekki hvað þetta var þá ákvað ég að hugsa ekkert út í það, því ég gæti hvort eð er ekkert breytt því."

„Ég fékk svo símtal, ég var í vinnunni í KVAN, það voru um 20 mínútur eftir af vinnudeginum. Ég var búinn að vera tala við Öglu Maríu líka því við fórum sama dag í segulómun, ég var búinn að pæla hvenær niðurstaðan kæmi allan daginn."

„Síðast þegar ég fór í myndatöku fékk ég send skilaboð, en ég var ekki búin að fá neitt í þetta skiptið."

„Síminn hringdi og ég sé að það er Ágústa (Sigurjónsdóttir) sjúkraþjálfari. Þá vissi ég að þetta var eitthvað verra. Hún spurði mig hvar ég væri, ég svaraði og spurði til baka hvort það væri slitið og fékk já til baka. Fremra krossbandið er slitið,"
sagði Olla sem fór eftir vinnu til sjúkraþjálfarans. „Ég fór þangað og grét þar."

Leið miklu verr í síðustu hnémeiðslum
Fylgdi því að slíta krossband einhver sársauki?

„Nei, nefnilega ekki. Ég er með slitið krossband, rifinn liðþófa og beinbjúg - sem er víst mjög týpiskt fyrir svona slit - en þegar ég reif liðþófann fyrir tveimur árum þá leið mér miklu verr, var miklu bólgnari og átti miklu erfiðara með að labba. Mér líður bara vel, það er lítil bólga í þessu."

Kemst eiginlega strax í aðgerð
Olla er heppin með að komast nokkuð fljótt í aðgerð. Hún á tíma á föstudaginn.

„Tveimur vikum eftir að hafa slitið, ég held það sé nokkuð vel sloppið."

Ætlar að fara til Bandaríkjanna
Eftir það tekur svo við löng endurhæfing. „Þetta verður alveg ár. Ég fer í aðgerð hér og svo tekur við sjúkraþjálfun hér heima. Ég verð á Íslandi næstu sjö vikurnar og flýg í kjölfarið út til Bandaríkjanna."

Olla er nemandi í Harvard, er þar á skólastyrk. Endurhæfingin mun halda þar áfram. „Ég verð í endurhæfingu þar, en undir handleiðslu frá sjúkraþjálfara héðan."

Spennt og glöð með að vera á leið út
Hvernig hljómar að fara út Bandaríkjanna en það verður enginn fótbolti?

„Það hljómar allt í lagi. Mig langaði ekki að taka pásu úr skólanum og vera hérna heima. Ég held að það sé miklu betra að vera úti í skólanum og hafa eitthvað meira að hugsa um en bara það að geta ekki spilað. Ég er bara mjög spennt að fara út, er eiginlega mjög glöð að ég sé að fara út og sé ekki að fara vera hérna heima."

Ætlar ekki að stefna á endurkomu fyrir EM
Eftir nákvæmlega ár hefst EM í Sviss. Ísland er hársbreidd frá því að tryggja sér þátttökurétt á mótinu. Olla hefur verið í landsliðshópnum í undanförnum leikjum og kom inn á gegn Austurríki í lok maí. Alls á hún að baki sjö landsleiki.

Er EM út úr myndinni hjá Ollu?

„Ég held það, ég er allavega ekki að stefna á það af því að þá myndu það vera svo mikil vonbrigði ef maður næði því ekki. Það eru nógu mikil vonbrigði að vita af því núna að mótið sé eiginlega úr myndinni."

„Það er vissara að taka tíma í endurhæfinguna, líkurnar á því að slíta aftur minnka verulega með því að bíða lengur. Ég set ekki pressu á sjálfa mig að ná EM. Ég ætla að standa mig eins vel og ég get í endurhæfingunni og koma sterkari til baka."

„Ég ætla líta á þetta sem tækifæri, hef ár til þess að vinna í styrk á báðum fótum, höfðinu og líkamanum í heild. Mig langar að koma sterkari til baka og nýta þetta sem tækifæri."


Þjálfarinn bauð Ollu sinn aðgerðartíma
Olla skipti yfir til Breiðabliks frá Þrótti í vetur eftir að samningur hennar við Þrótt rann út. Leikurinn gegn Víkingi, þar sem krossbandið slitnaði, var hennar áttundi keppnisleikur með Breiðabliki.

„Mér er búið að líða mjög vel í Breiðabliki, það er rosalega góður liðsandi og góð stemning í liðinu. Við spilum vel, fínan fótbolta og ég er mjög hamingjusöm hjá félaginu. Eftir að ég grét með Ágústu þá ákvað ég að fara á æfingu, inn í klefa og kældi hnéð. Ég fór til þess að rífa plásturinn af, sagði stelpunum hvernig staðan væri."

„Nik (Chamberlain þjálfari) bauð mér sinn tíma í aðgerð, hann er að fara held ég daginn á undan mér, en ég þurfti hann ekki."


Grætur meira yfir þeim augnablikum
Tilfinningin sem Olla hefur upplifað síðustu daga er mikið þakklæti.

„Ég er búin að finna fyrir miklum stuðningi frá öllum og allir sjúkraþjálfarar hafa reynt að hjálpa mér og reynt að troða mér að hjá lækni. Daginn eftir að ég fékk fréttirnar þá fór ég til læknis og fékk strax aðgerðartíma. Ágústa kom eiginlega veik í vinnuna á föstudeginum, bara til þess að sinna mér. Ég græt meira á þeim augnablikum þegar ég hugsa um þetta fólk heldur en þegar ég er í einhverri sjálfsvorkunn."

„Ég hef ekki áhyggjur af þeim"
Olla er að fara horfa á Breiðablik af hliðarlínunni út tímabilið. Hún hefur mikla trú á sínu liði.

„Ég held það mun ganga vel og það verður gaman að fylgjast með. Það verður smá sárt að vita að maður getur ekki spilað með, en þetta er svo ótrúlega góður hópur og ég hef ekki áhyggjur af þeim þó svo að ég verði ekki með. Ég verð alltaf inni í klefa og ég get alltaf haft áhrif þannig. Við erum með það mikil gæði í hópnum að ég held það muni ekki koma að sök."

Verður erfiðara þegar líður á
Olla hefur upplifað að horfa á einn leik eftir að hún fékk að vita hversu alvarleg meiðslin væru.

„Það var alveg erfitt að horfa á leikinn gegn Þór/KA. En eftir að hafa fengið tíðindin upplifði ég mikinn doða, þannig það er erfitt að lýsa einhverjum tilfinningum sem komu þá, gæti orðið erfiðara að fylgjast með næsta leik. Ég held það verði erfiðara að horfa á stelpurnar spila eftir því sem líður á tímann frá vellinum. Þannig var allavega mín upplifun síðasta þegar ég var meidd," sagði Olla að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner