Þessir eru á óskalista Man Utd - Tilboði Arsenal í Calafiori hafnað - Barcelona vill Olmo
   þri 02. júlí 2024 16:46
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Lykillinn að árangri Fjölnis - „Þessi hópur klárar þetta sumar"
Lengjudeildin
Júlíus Mar.
Júlíus Mar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldvin Þór.
Baldvin Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnir er á toppi Lengjudeildarinnar, með þriggja stiga forskot eftir að hafa sigrað Gróttu á sunnudag. Sama dag tapaði Njarðvík, sem situr í 2. sæti, gegn Aftureldingu.

Mikið hefur verið rætt og ritað um miðvörð liðsins, Júlíus Mar Júlíusson, en félög í efstu deild hafa mikinn áhuga á kappanum og eru ÍA og KR þar á meðal. Félagi hans í hjarta varnarinnar, Baldvin Þór Berndsen, hefur þá einnig verið að spila vel.

Lestu um leikinn: Fjölnir 5 -  2 Grótta

Albert Brynjar Ingason sagði fyrir helgi frá því í hlaðvarpsþætti sínum, Gula Spjaldinu, að KR hefði boðið 500 þúsund krónur í Júlíus og Fjölnir hefði hlegið að því. Það fylgdi sögu Alberts að KR hefði svo hringt í föður leikmannsins og Fjölnismenn hafi verið allt annað en sáttir með það. Júlíus Mar er samningsbundinn Fjölni út næsta tímabil. Hann er yngri bróðir Gumma Júl, Guðmundar Þórs Júlíussonar.

Lykillinn að árangri Fjölni
Nánar var rætt um miðvarðaparið í útvarpsþættinum um liðna helgi.

„Baldvin Berndsen og Júlíus Mar voru sturlaðir gegn Aftureldingu (í síðustu viku). Þetta hafsentapar er lykillinn að árangri Fjölnis," sagði Baldvin Már Borgarsson.

„Þeir eru ólíkir, báðir tvítugir og með ágætis hæð. Baldvin er aðeins sterkari og fljótari líka. Júlli er með miðjumannsgrunn og er ótrúlega góður spilari. Hann er frábær karakter. Ef Fjölnir fer ekki upp með þá núna þá finnst mér þeir báðir geta spilað í Bestu deildinni á næsta ári," sagði Baldvin. Hann nefndi fyrr í sumar að Skaginn væri alvarlega að íhuga að fá Júlíus.

„Þeir (Júlíussynir) hafa tengingu upp á Skaga, annar ættleggurinn er af Skaganum. Ég væri mikið til í að sjá Júlla spila restina af mótinu í vörninni hjá ÍA eða KR," sagði Baldvin.

Úlfur Arnar Jökulsson, þjálfari Fjölnis, ræddi við Fótbolta.net eftir sigurinn gegn Gróttu.

„Klárlega er það hrós fyrir félagið og uppeldisstarfið að það sé áhugi á okkar leikmönnum. Það þarf ekki meira en að kíkja á Fjölnimenn sem eru að spila i efstu deild og erlendis núna. Við erum með gott unglingastarf, eigum mikið af leikmönnum í efstu deild og í atvinnumennsku. Það er engin breyting á því að ungir leikmenn fá tækifæri í Fjölni, tækifæri til þess að vaxa. Strákarnir eru að standa sig vel, hugsa bara um einn dag í einu, líður mjög vel hérna og láta svona umtal ekkert trufla sig. Þeir halda bara áfram að vaxa og bæta sig og við erum bara rólegir," sagði Úlfur.

„Við erum allir bara einbeittir á Fjölni. Það er ekkert að fara gerast í sumar, það er bara þannig. Þessi hópur klárar þetta sumar," bætti þjálfarinn við.
Úlfur: Í seinni hálfleik þá fannst mér miklu meiri orka og fókus
Útvarpsþátturinn - Innkastið í beinni á X977
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner