Amorim vill að Quenda verði keyptur - West Ham hefur áhuga á Harwood-Bellis - Hár verðmiði á Branthwaite
   mið 04. janúar 2023 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Elísabet um íslenska landsliðið: Langt frá veruleikanum í dag
Icelandair
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir leikinn á móti Hollandi í september síðastliðnum.
Eftir leikinn á móti Hollandi í september síðastliðnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísabet Gunnarsdóttir var sterklega orðuð við þjálfarastarfið hjá íslenska kvennalandsliðinu í ársbyrjun 2021.

Elísabet, sem var valin þjálfari ársins á Íslandi árið 2020, fór í viðræður við KSÍ en þær gengu ekki upp á endanum. Þorsteinn Halldórsson, sem hafði gert mjög góða hluti með Breiðablik, tók við liðinu.

Elísabet hefur stýrt Kristianstad í Svíþjóð frá 2009 og gert mjög flotta með liðið. Hún var tilbúin að taka við landsliðinu með því skilyrði að hún fengi að klára tímabilið í Svíþjóð.

Hún var gestur í hlaðvarpsþætti á Fótbolta.net fyrir áramót. Þegar hún var spurð út í draumastarfið í þættinum þá sagði hún „Portland (Thorns) hefði verið geggjað, það er að mörgu leyti ákveðið draumastarf. Ég trúi á það að hlutirnir komi til manns þegar þeir eiga að koma til manns... sænska landsliðið væri líka ótrúlega spennandi og enska deildin er spennandi."

Hún var í kjölfarið spurð út í íslenska landsliðið. „Það er svo langt frá veruleikanum í dag. Steini er búinn að skrifa undir langan samning. Ég er ekkert að pæla í því í dag. Ef þú hefðir spurt mig fyrir einu og hálfu ári síðan þá var ég á leiðinni að taka við íslenska landsliðinu."

Þorsteinn skrifaði undir samning til 2026 á síðasta ári, áður en Evrópumótið hófst.

Það var drullusvekkjasndi
Elísabet viðurkennir að það hafi verið svekkjandi að fá ekki að taka við landsliðinu. Hún skilur ekki alveg þau rök sem KSÍ gaf, að hún gæti ekki stýrt báðum liðum í nokkra mánuði.

„Það var drullusvekkjandi, sérstaklega í ljósi þess að þetta var mögulegt á þessum tima. Ég fór í viðræður við Portland því Mark Parsons var að hætta til að taka við Hollandi á sama tíma. KSÍ sagðist ekki vilja setja landsliðið í aukahlutverk og þetta liti ekki vel út á við. Freyr (Alexandersson) gerði þetta þegar hann þjálfaði Leikni og tók við kvennalandsliðinu, Mark Parson tók við Evrópumeisturum Hollands á sama tíma og þjálfaði Portland áfram. Það sagði enginn neitt við því; hann flaug á milli Hollands og Bandaríkjanna og það var ekkert vesen."

„Ég var alveg bitur í nokkrar vikur, en það er bara búið. Steini tók við og er með langan samning. Ég pæli ekkert í því starfi," segir Elísabet.

„Það voru fá verkefni þetta ár, þetta hefði ekki verið neitt mál. Ég var alveg mjög skýr með það að ég myndi hætta með Kristianstad í lok árs."

Maður horfir á sjónvarpið orðlaus
Elísabet var í kjölfarið spurð út í síðastliðið ár hjá landsliðinu sem var mjög svekkjandi. Liðið náði ekki markmiðum sínum á EM og missti grátlega af sæti á EM:

„Maður horfir á íslenska landsliðið sem Íslendingur sem heldur með liðinu og líka með gagnrýnum augum sem þjálfari. Út frá íslenska áhorfendanum þá var þetta erfitt ár, skrítið ár. Það voru miklar væntingar og góð tilfinning á leið inn í Evrópumótið. Það var allt í lagi, það var ekkert hræðilegt. Sem áhorfandi skilur maður við Evrópumótið strax og setur alla einbeitingu á Hollandsleikinn. Maður horfir á þann leik með vonir og þrá um að fara á HM. Sá leikur var ótrúlega skrítinn leikur sem endar á versta veg. Maður horfir á sjónvarpið orðlaus. Svo kemur Portúgal í umspilinu og það er það sama," segir Elísabet.

„Höggið að tapa sætinu til Hollands drepur svolítið stemningu fyrir leikinn gegn Portúgal."

„Svo þegar ég horfi á þetta sem þjálfari þá erum við búin að sjá allt árið merki þess að þetta myndi fara svona - hvernig liðið spilar. Það eru vonbrigði fyrir mér hvernig við spilum með þá leikmenn sem við erum með á vellinum. Við erum með leikmenn í stórkostlegum liðum í öllum heiminum og fleiri á leiðinni."

Elísabet segir varnarleikinn vel skipulagðan, stórkostlegan og fallegan að horfa á. „Hann er unnin með miklu hjarta og mikilli kænsku hjá þjálfaraliðinu og leikmönnunum í sinni stöðu. En vandamálið er þegar við erum með boltann," sagði Elísabet en hægt er að hlusta á alla umræðuna hér fyrir neðan þar sem hún ræðir meira um íslenska landsliðið og margt annað.

Sjá einnig:
Elísabet tekur ekki við landsliðinu - „Ég er drullusvekkt með þetta"
Elísabet leyfir smábænum að dreyma - Hvað tekur svo næst við?
Athugasemdir
banner
banner
banner