Enski miðvörðurinn Tyrone Mings gerði sig sekan um hræðileg mistök í 1-0 tapi Aston Villa gegn belgíska liðinu Club Brugge í kvöld.
Mings er að snúa til baka úr meiðslum og var að spila sinn fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu.
Það er líklega leikur sem hann vill gleyma sem allra fyrst, en mistök hans kostuðu liðið stig.
Snemma í síðari hálfleik fékk hann á sig vítaspyrnu fyrir að taka boltann upp með höndum í eigin teig. Villa átti markspyrnu sem Emiliano Martinez tók snöggt á Mings. Hann áttaði sig ekki á því að boltinn væri í leik og tók boltann upp með báðum höndum og stillti honum á markteigslínuna.
Eðlilega dæmdi dómarinn vítaspyrnu en Mings skildi lítið í ákvörðun hans.
Hans Vanaken skoraði úr vítaspyrnunni sem reyndist sigurmarkið og fyrsta tap Villa staðreynd. Þetta undarlega atvik má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir