Orri Steinn Óskarsson viðurkennir það í samtali við danska fjölmiðla að sér hafi fundist það ósanngjarnt að vera utan hóps í síðustu deildarleikjum.
Orri hefur verið utan hóps í undanförnum deildarleikjum en það verður í raun að teljast óskiljanlegt þar sem Orri hefur nýtt tækifæri sín vel og skorað átta mörk og lagt upp sjö í 29 leikjum á tímabilinu. Hann er að skora mark á 161 mínútna fresti.
„Þetta hefur verið gríðarlega erfitt," segir Orri um það að vera utan hóps.
„Ég átti það ekki skilið að vera utan hóps. Við erum með mikla breidd og það gerist stundum að góðir leikmenn komast ekki í hópinn. Þetta hefur verið erfitt en ég hef bara reynt að standa mig vel á æfingum."
„Núna fékk ég að byrja og mér fannst ég eiga það skilið. Ég hef bara fengið þá skýringu að ákveðnir leikir hafi ekki hentað mér vel og aðrir leikmenn séu á undan mér. Ég reyni að hrista það af mér."
Jacob Neestrup, þjálfari FCK, tjáði sig einnig um Orra eftir leikinn gegn Manchester City í gær. Orri byrjaði þar og átti stórkostlega stoðsendingu.
„Þetta hefur eiginlega verið allt eða ekkert með Orra. Við teljum að Cornelius sé með vopn sem enginn annar er með, sem nýtist okkur vel inn af bekknum. Mér fannst gaman að sjá Orra spila í dag. Hann verður að gefa í á æfingsvæðinu og mér finnst hann hafa verið að gera það," sagði Neestrup.
Hinn 19 ára gamli Orri hefur verið orðaður við félög í Noregi og Svíþjóð að undanförnu en Neestrup segist ekkert kannast við það.
Athugasemdir