Real Madrid setur Alexander-Arnold í forgang - Barella orðaður við mörg félög - Tekur Montella við af Ten Hag? - Liverpool horfir á varnarmann Sevilla
banner
   mán 07. ágúst 2023 20:19
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Valur að selja Kristófer Jóns í ítölsku C-deildina
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur er samkvæmt heimildum Fótbolta.net búið að samþykkja tilboð frá ítalska félaginu Triestina Calcio í miðjumanninn Kristófer Jónsson.

Kristófer er uppalinn í Haukum en gekk í raðir Vals fyrir tímabilið 2021. Hann náði ekki að spila deildarleik með Val áður en hann var lánaður til Venezia á Ítalíu og var hann í Feneyjum í tvö ár.

Sjá einnig:
Kristófer: Orðinn miklu betri leikmaður eftir tímabilin á Ítalíu

Kristófer sneri til baka í Val fyrr í sumar og fékk leikheimild með Val fyrir um þremur vikum síðan. Hann kom við sögu í einum leik með Val, kom inn á sem varamaður gegn Fram, en var hvorki í hópnum gegn KR né í dag gegn KA.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net átti Kristófer að vera í hópnum hjá Val í dag en þar sem Valur var búið að samþykkja tilboð var Kristófer ekki í hópnum.

Kristófer er tvítugur U21 landsliðsmaður sem fer nú í ítölsku C-deildina. Triestina er í norðaustur-hluta Ítalíu nálægt landamærunum við Slóveníu og Króatíu.

Attilio Tesser er aðalþjálfari liðsins, hann er 65 ára og lék á sínum tíma með Udinese og Napoli.

Triestina endaði í 18. sæti af 20 liðum í A-riðli C-deildarinnar á síðasta tímabili en bjargaði sér frá falli í fallumspilinu í maí. Liðið hefur verið í C-deildinni frá árinu 2017 þegar liðið kom upp úr D-deildinni. Síðast var liðið í efstu deild árið 1959. Næsta tímabil hefst í byrjun september.
Athugasemdir
banner
banner