Liverpool hefur sett sig í samband við fólk sem er nátengt Alexander Isak - Úlfarnir horfa til Jota
   sun 09. október 2022 22:40
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta: Get ekki annað en fyllst af stolti
Mynd: EPA

Mikel Arteta var himinlifandi eftir 3-2 sigur Arsenal gegn stórliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag.


Arsenal endurheimti toppsæti deildarinnar með sigrinum og er með eins stigs forystu á ríkjandi Englandsmeistara Manchester City sem eru enn taplausir.

„Ég er ótrúlega ánægður, þetta er gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur. Þetta gefur leikmönnum aukið sjálfstraust. Ég var sérstaklega hrifinn af stemningunni á vellinum, hún var frábær. Áhorfendur og leikmenn tengdust og mynduðu sturlaða orku. Ég horfði á þetta lið spila í dag og gat ekki gert annað en fyllst af stolti," sagði Arteta að leikslokum.

Arsenal tók forystuna á fyrstu mínútu en Liverpool tók stjórn á leiknum og jafnaði. Arsenal náði forystunni aftur fyrir leikhlé en Liverpool jafnaði á ný í síðari hálfleik og réðust úrslitin ekki fyrr en á dramatískum lokakafla.

„Það voru nokkrir hlutir sem þurftum að laga eftir fyrri hálfleikinn og ég lét strákana vita af því í leikhlé. Allt gekk betur í síðari hálfleik, skipulagið og pressan voru betri og við unnum baráttuna um boltann trekk í trekk. Ég var sérstaklega ánægður með það. Strákarnir spiluðu af meira hugrekki og yfirvegun eftir leikhlé og það skilaði sér."

Arteta hrósaði ungstirninu Gabriel Martinelli að lokum en hann skoraði og lagði upp í sigrinum og var valinn besti maður vallarins af Sky Sports.


Athugasemdir
banner