Mikel Arteta knattspyrnustjóri Arsenal hefur miklar mætur á varnarmanninum sínum Ben White.
White er 24 ára fjölhæfur varnarmaður með fjóra A-landsleiki a baki fyrir England. Það kom á óvart þegar Gareth Southgate valdi hann ekki í landsliðshópinn sem mætti Ítalíu og Þýskalandi í Þjóðadeildinni í september.
White hefur verið öflugur með Arsenal á upphafi tímabils og virðist vera búinn að hirða hægri bakvarðarstöðuna. Hann er fínn sóknarlega en hans helsti kostur er varnarleikurinn.
„Ben er mjög hæfileikaríkur og fjölhæfur varnarmaður. Hann getur spilað bæði sem bakvörður eða miðvörður hvort sem það er notast við þriggja, fjögurra eða fimm manna varnarlínu," sagði Arteta.
„Að mínu mati þá er hann tilbúinn fyrir enska landsliðið. Þetta er strákur sem er fullur sjálfstrausts og leggur alltaf allt í sölurnar. Hann er aldrei meiddur og hefur hugrekkið til að spila undir alvöru pressu."