Liverpool hefur sett sig í samband við fólk sem er nátengt Alexander Isak - Úlfarnir horfa til Jota
banner
   sun 09. október 2022 21:19
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Við erum ekki í titilbaráttunni - Ósammála dómgæslunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA

Jürgen Klopp segir að Liverpool sé ekki partur af titilbaráttunni eftir 3-2 tap gegn toppliði Arsenal í dag.


Liverpool er nú þegar fjórtán stigum eftir Arsenal, þó með leik til góða, og er þetta versta byrjun félagsins á úrvalsdeildartímabili síðasta áratuginn.

„Við erum ekki með í titilbaráttunni. Við erum að glíma við vandræði þessa stundina en við verðum að halda áfram á sömu braut. Þó við séum að ganga í gegnum slæman kafla þá mætum við í hvern einasta leik og gefum allt í hann. Við sitjum ekki hérna í rólegheitunum að fagna árangrinum frá því í fyrra," sagði Klopp.

„Við erum mjög vonsviknir. Í þessum þremur mörkum í dag gerðum við alltaf afdrifarík mistök. Við náðum að stjórna leiknum um tíma gegn gríðarlega aggressívu Arsenal liði sem er fullt sjálfstrausts, á þeim kafla sýndum við hvað við getum."

Klopp talaði meira um leikinn og þá sérstaklega tvær mikilvægar dómaraákvarðanir sem hann var ósammála. Fyrst vildi Klopp fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hendi Gabriel Magalhaes innan vítateigs og síðan vildi hann ekki að Arsenal fengi vítaspyrnu þegar Gabriel Jesus féll eftir samskipti við Thiago Alcantara.

„Mér fannst áhugavert að honum hafi fundist þetta vera vítaspyrna við fyrstu sín. Þetta var skoðað í VAR herberginu og ef tveir dómarar eru sammála um þetta þá er það bara staðreynd sem við þurfum að lifa með. 

„Ég er ekki viss um að það hafi verið snerting en ef hún var einhver þá var hún afar mjúk. Þetta lítur út eins og dýfa hjá sóknarmanninum.... en það fannst dómurunum ekki.

„Svo voru þeir líka sammála í fyrri hálfleik þegar boltinn fór í hendina á varnarmanni. Við getum ekki breytt því heldur."

Klopp endaði viðtalið með að tala um meiðsli Luis Diaz og Trent Alexander-Arnold. Diaz er að glíma við hnémeiðsli sem líta illa út og Trent sneri sig illa á ökkla. 

„Við erum í mjög erfiðri stöðu núna. Ákvarðanir sem fara gegn okkur og meiðslavandræði gera lífið ekki léttara. Við töpuðum leik þrátt fyrir flotta frammistöðu. Við áttum skilið að fá stig úr þessari viðureign."


Athugasemdir
banner
banner
banner