Franski miðillinn RMC greinir frá því að búið sé að reka Hollendinginn Peter Bosz úr þjálfarasætinu hjá Lyon eftir slæmt gengi í undanförnum leikjum.
Lyon byrjaði tímabilið vel en gerði jafntefli í heimaleik gegn Toulouse um helgina eftir að hafa tapað fjórum leikjum í röð. Liðið er með 14 stig eftir 10 umferðir, 12 stigum eftir toppliði Paris Saint-Germain.
Alexandre Lacazette var fenginn til Lyon í sumar og gerður að fyrirliða félagsins eftir að hafa verið fyrirliði hjá Arsenal. Eftir jafnteflið gegn Toulouse á föstudagskvöldið fór hann í viðtal á Prime Video og viðurkenndi þar vandamálin innan félagsins.
Hann gagnrýndi meðal annars ákvörðun Bosz að skipta Moussa Dembele af velli í leiknum og talaði um að ekki allir leikmenn liðsins skildu leiðbeiningarnar frá þjálfaranum.
ESPN í Hollandi segir að Bosz hafi verið rekinn í gær en félagið mun ekki tilkynna það fyrr en seinna í dag eða á morgun. Fabrizio Romano tekur undir það.