Það voru nokkrir Íslendingar sem komu við sögu víðsvegar um heiminn í dag og voru tveir þeirra í Grikklandi.
Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn í 1-0 sigri Panathinaikos gegn Asteras Tripolis á meðan Sverrir Ingi Ingason lék allan tímann í jafntefli PAOK á útivelli gegn Levadiakos.
Panathinaikos trónir á toppi grísku deildarinnar með fullt hús stiga eftir sjö umferðir á meðan PAOK hefur farið hikstandi af stað og er með 12 stig.
Guðmundur Þórarinsson var þá ónotaður varamaður í 1-2 tapi OFI Crete gegn stórliði Olympiakos, en Ögmundur Kristinsson var ekki í hópi hjá Olympiakos frekar en áður. Olympiakos er með 14 stig á meðan Gummi Tóta og félagar eru aðeins með fjögur.
Panathinaikos 1 - 0 Asteras Tripolis
Levadiakos 1 - 1 PAOK
OFI Crete 1 - 2 Olympiakos
Willum Þór Willumsson lék þá allan leikinn á kantinum hjá Go Ahead Eagles í efstu deild hollenska boltans. G.A. Eagles gerði markalaust jafntefli við Cambuur og eru bæði lið með 8 stig eftir 9 umferðir.
Í ítölsku C-deildinni lék 38 ára gamall Emil Hallfreðsson allan leikinn á miðju Virtus Verona sem gerði jafntefli við Mantova í fallbaráttunni. Verona er aðeins komið með fjögur stig eftir sjö umferðir og er án sigurs.
Að lokum er komið að Norður-Ameríku þar sem Róbert Orri Þorkelsson kom inn af bekknum í góðum útisigri CF Montreal gegn Inter Miami í lokaumferð venjulega deildartímabilsins í MLS. Róbert Orri kom inn í stöðunni 0-3 og fékk að spila síðasta hálftímann í 1-3 sigri.
Guðlaugur Victor Pálsson var ekki í leikmannahópi Wayne Rooney er D.C. United steinlá á heimavelli gegn FC Cincinnati. Það vantaði einn öflugan varnartengilið en Ravel Morrison skoraði í tapinu á meðan Christian Benteke lék allan leikinn án þess að komast á blað.
Montreal lýkur deildakeppninni í öðru sæti og fer í úrslitakeppnina á meðan D.C. endar á botninum með 27 stig úr 34 umferðum. Sem betur fer fyrir Rooney er ekki hægt að falla úr MLS deildinni.
Þorleifur Úlfarsson fékk þá síðustu mínúturnar til að spreyta sig í tapi Houston Dynamo gegn Los Angeles Galaxy. Houston endar meðal neðstu liða deildarinnar með 36 stig.
G.A. Eagles 0 - 0 Cambuur
Virtus Verona 1 - 1 Mantova
Inter Miami 1 - 3 CF Montreal
DC United 2 - 5 Cincinnati
Houston Dynamo 1 - 3 LA Galaxy