Þá er búið að draga í riðla fyrir undankeppni næsta Evrópumóts og eru nokkrir æsispennandi riðlar í boði.
England er í C-riðli með Ítalíu og mætast liðin því enn eina ferðina eftir jafnar rimmur undanfarin misseri. Ítalía vann úrslitaleik síðasta Evrópumóts gegn Englandi á Wembley og hafa liðin mæst tvisvar sinnum í Þjóðadeildinni síðan þá, þar sem Ítalía hafði betur á heimavelli eftir markalaust jafntefli á Englandi.
Norður-Makedónía er einnig í riðlinum en það voru Makedónar sem lögðu Ítali óvænt að velli í umspilskeppninni fyrir HM. Stríðshrjáðir Úkraínumenn eru einnig með í þessum sterka undanriðli.
Holland og Frakkland eru þá saman í B-riðli ásamt Írum og Grikkjum á meðan Erling Braut Haaland og félagar í norska landsliðinu eru með Spánverjum og Skotum í riðli.
Frændur okkar frá Danmörku fá þægilegan riðil með Finnum á meðan Svíar eru í riðli með Belgíu og Austurríki.
Að lokum er Ísland í J-riðli ásamt Portúgal og Bosníu. Það komast tvö lið upp úr hverjum riðli sem fara beint á Evrópumótið.
Í heildina eru 24 þjóðir sem komast á EM, 20 koma beint úr undanriðlunum og þrjár koma úr umspilskeppninni á meðan heimamenn í Þýskalandi fara sjálfkrafa á mótið. Umspilskeppnin er ekki á milli liða sem enda í þriðja sæti riðlanna heldur á milli þeirra landsliða sem sigruðu sína riðla í Þjóðadeildinni.
A-riðill: Spánn, Skotland, Noregur, Georgía, Kýpur
B-riðill: Holland, Frakkland, Írland, Grikkland, Gíbraltar
C-riðill: Ítalía, England, Úkraína, N-Makedónía, Malta
D-riðill: Króatía, Wales, Armenía, Tyrkland, Lettland
E-riðill: Pólland, Tékkland, Albanía, Færeyjar, Moldóva
F-riðill: Belgía, Austurríki, Svíþjóð, Aserbaídsjan, Eistland
G-riðill: Ungverjaland, Serbía, Svartfjallaland, Búlgaría, Litháen
H-riðill: Danmörk, Finnland, Slóvenía, Kasakstan, N-Írland, San Marínó
I-riðill: Sviss, Ísrael, Rúmenía, Kósovó, Hvíta-Rússland, Andorra
J-riðill: Portúgal, Bosnía, Ísland, Lúxemborg, Slóvakía, Liechtenstein