Það hefur nokkuð verið rætt um að það vanti meiri styrk í hjarta varnarinnar hjá íslenska landsliðinu, og það vantar í raun bara miðverði. Í leiknum gegn Lúxemborg voru Guðlaugur Victor Pálsson og Hörður Björgvin Magnússon miðverðir en þeim líður kannski betur í öðrum stöðum á vellinum.
„Þetta hefur breyst svolítið. Fyrir langa löngu síðan var nóg af varnarmönnum og notum mikið hafsenta í bakvörðum, þannig þetta var ekki staða sem við höfðum áhyggjur af þá. Hverja erum við með fyrir utan hóp? Daníel Leó og Sverrir svo meiddur,“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, sérfræðingur Stöð 2 Sport eftir leikinn við Lúxemborg.
Hann og Kári Árnason voru báðir varnarmenn á sínum ferli. Þeir töluðu um að það vantaði ákveðna týpu af varnarmönnum í þetta lið í dag.
„Ég held að það hafi gerst að það hafi verið lögð áhersla á eitthvað allt annað, reynt að gera eitthvað mini Spán úr Íslandi og hitt gleymdist bara. Harðhausarnir hafa verið settir til hliðar, ekki nógu góðir í fótbolta og ekki að finna menn milli lína. Það vantar fullorðins varnarmenn sem elska að verjast og skrítið að segja það en að meiða pínu og vera vondur. Það hefur lúffað fyrir þeim sem eru bestir í fótbolta að fá að spila," sagði Kári.
Age Hareide, landsliðsþjálfari, var spurður út í þessa umræðu á fréttamannafundi í dag. Hann sagði þá að fótbolti væri alltaf að breytast og að mismunandi leikmenn væru að koma upp. Það væri vissulega gott að vera með Kára í liðinu núna, en Hareide er þó á því máli að íslenska liðið geti varist vel í núverandi mynd og það séu dæmi til um það. Leikmenn þurfa að stíga upp.
„Það eru mismunandi tímabil í fótboltanum og það koma mismunandi gerðir af leikmönnum upp. Ég var með Kára Árnason í Malmö og ég veit hvað liðið fékk frá honum. En hann er ekki hérna núna," sagði Hareide.
„Við þurfum að velja úr leikmönnunum sem við erum með. Það eru ekki til 10 milljónir Íslendingar, bara í kringum 400 þúsund. Önnur lönd hafa úr fleiri leikmönnum að velja. Ef við förum aftur í leikina á móti Slóvakíu og Portúgal, þá vörðumst við vel þar. Við þurfum alla góða leikmenn frá Íslandi í liðið, það er það mikilvægasta fyrir mig."
„Í lífinu eigum við stundum líka bara slæma daga. Þú átt líka slæma daga sem fjölmiðlamaður, kannski. Við eigum slæma daga. Það er það sama á fótboltavellinum. Það er mikilvægt að hugsa vel um þá sem gera mistök og eiga erfitt einhvern daginn. Við erum eins og fjölskylda þegar við erum saman. Leikmennirnir tengjast sterkum böndum. Það er styrkleiki fyrir Ísland, hversu vel liðið getur komið saman. Það eru ekki stjörnur hérna með stórt egó. Þetta eru leikmenn sem vilja spila fyrir Ísland. Það vilja allir standa sig vel. Frammistaðan var ekki góð og við verðum að sýna að við séum betri en þetta," sagði Hareide jafnframt.
Ísland spilar á morgun við Bosníu í undankeppni Evrópumótsins á Laugardalsvelli.
Athugasemdir