Wayne Rooney, fyrrum fyrirliði Manchester United og enska landsliðsins, var í morgun ráðinn nýr stjóri Birmingham City í ensku Championship-deildinni.
Birmingham hefur verið að gera góða hluti í Championship-deildinni og er í sjötta sæti. John Eustace var hinsvegar rekinn, af þeirri einu ástæðu að forráðamenn félagsins vildu fá inn stjörnu til að vera andlit félagsins.
Rooney lét af störfum sem stjóri DC United í bandarísku MLS-deildinni á dögunum. Hann var áður stjóri Derby þar sem hann gerði flotta hluti við mjög erfiðar aðstæður.
Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður Íslands, spilaði fyrir Rooney hjá DC United. Hann var spurður út í þetta skref hjá sínum gamla þjálfara í viðtali við Fótbolta.net í gær.
„Maður vissi það alltaf að hann yrði ekki lengur áfram í DC. Hugur hans var að leita heim aftur til Englands. Hann hefur fengið þetta tækifæri í gegnum amerísku eigendurna þarna. Þetta er mjög spennandi tækifæri fyrir hann og hans teymi. Ég held að hann sé mjög ánægður með þetta," sagði Guðlaugur Victor.
En hvernig þjálfari er Rooney?
„Hann er mjög góður. Það sem hann má eiga er að hann er geggjaður maður á mann þjálfari. Hann er með gott teymi í kringum sig. Hann er svona breskur þjálfari af gamla skólanum. Hann er geggjaður."
Athugasemdir