,,Hugsaði að maður ætti það ekki mikið skilið eftir að hafa fallið''
Það gefur manni mikið að fá þetta traust, þá sjálfkrafa fær maður einhverja innspýtingu og fer að spila betur
„Í byrjun var ég ekki mikið inn í þessu, var pirraður að vera ekki spila en gat kannski ekki kvartað mikið því maður var ekki alltaf heill. Svo þegar ég komst í gang var ég mjög sáttur, sérstaklega undir lokin. Ég endaði mjög vel og náði að tikka inn stoðsendingum, mörkum og góðum frammistöðum líka sem var mjög sterkt," sagði Brynjólfur Andersen Willumsson við Fótbolta.net í síðustu viku.
Brynjólfur átti góðan lokakafla með Kristiansund sem var hársbreidd frá því að halda sæti sínu í norsku Eliteserien en féll niður í næstefstu deild þar sem Sandefjord náði dramatísku jafntefli í lokaumferðinni og kom sér upp fyrir Kristiansund í töflunni.
Brynjólfur átti góðan lokakafla með Kristiansund sem var hársbreidd frá því að halda sæti sínu í norsku Eliteserien en féll niður í næstefstu deild þar sem Sandefjord náði dramatísku jafntefli í lokaumferðinni og kom sér upp fyrir Kristiansund í töflunni.
Binni, eins og hann er oftast kallaður, kom við sögu í 25 leikjum á tímabilinu, skoraði fjögur mörk og lagði upp fjögur. Hann var sautján sinnum í byrjunarliði liðsins og töpuðust fjórir af fimm leikjum liðsins þegar hann kom ekkert við sögu.
Annað úr viðtalinu:
„Í draumaheimi? Þá kæmi draumatilboð og þá væri maður ekki áfram"
Brynjólfur byrjaði átta af síðustu tíu leikjum liðsins, skoraði fjögur mörk í þeim og lagði upp tvö. Í hinum tveimur gat hann ekki spilað vegna meiðsla. Í leikjunum átta náði liðið í þrettán af þeim 23 stigum sem liðið krækti í allt tímabilið. Var svekkjandi að það voru ekki nokkrir leikir eftir þegar það var að ganga svona vel undir lok tímabils?
„Maður hefði viljað fá fleiri leiki, það var leiðinlegt að missa út þessa tvo leiki vegna meiðsla. Maður vildi ekki að tímabilið myndi hætta. Ég fékk sýkingu í hnéð, þurfti að fara upp á spítala og var þar í sex daga, mætti 2-3 dögum fyrir leik á æfingar og fór beint inn í liðið. Það gefur manni mikið að fá þetta traust, þá sjálfkrafa fær maður einhverja innspýtingu og fer að spila betur."
Binni byrjaði einungis þrjá af fyrstu fjórtán leikjunum og fékk Kristiansund einungis eitt stig af 42 mögulegum. Hvernig var stemningin á þeim tíma?
„Þetta er eitthvað skrítnasta sem ég hef upplifað, er búinn að vera í yngri flokkum Breiðabliks og í Breiðabliki - aldrei verið í svona stöðu. Þetta var orðið mjög þungt á æfingum, allir pirraðir. Æfingarnar voru mjög skrítnar, allir ætluðu að laga allt. Svo voru nokkrir, ég og nokkrir aðrir, sem vorum ekki að spila og liðinu ekki breytt í einhverja 14-15 leiki. Það var bæði pirringur og svo stress hvað gæti gerst ef við héldum svona áfram. Það voru allir búnir að afskrifa okkur, segja að við værum fallnir. Þannig stemningin var ekki mjög spes."
„Ég hugsaði aldrei að við værum að fara falla, sérstaklega þegar ég byrjaði að spila. Þá hugsaði ég að við værum alltaf að fara halda okkur uppi, myndum vinna einhverja leiki. Ég hafði trú á því burt séð frá því hvaða liði við vorum að mæta. Ég hugsaði aldrei að hitt liðið væri betra en við. Það er kannski það sem vantaði, kannski ekki alveg sama hugarfarið hjá öllum."
Hjálpaði að fara í úrslitaleiki með félagsliðinu
Brynjólfur var fyrirliði U21 landsliðsins sem fór alla leið í umspil fyrir lokamót EM2023. Þar mætti liðið Tékklandi en tapaði 2-1 samanlagt. Sitja þeir leikir ennþá mikið í Binna?
„Þetta sat alveg í manni einhverjar nætur eftir þá, það gerði mikið að maður fór beint aftur í alvöru leiki (með Kristiansund), úrslitaleiki þar sem mikið var undir. Það hjálpaði mér að hætta hugsa um Tékkaleikina en það var náttúrulega súrt að fara ekki áfram með U21 árs liðinu."
„Maður hugsaði mikið: Ef þetta hefði farið inn, hvað hefði gerst? Maður getur ekki breytt neinu, en gerir það sjálfkrafa ef maður horfir á leikinn og skoðar hvað maður sjálfur gat gert betur."
Hvernig er lífið í Noregi?
„Það var fínt undir lokin, það var ekki frábært þegar við vorum að tapa öllum leikjum og ég ekki að spila. En svo lengi sem þú ert að spila fótbolta þá held ég að það skipti ekki máli hvar ert þú. Það er ekki mikið að frétta (í Kristiansund), en maður finnur sér eitthvað. Maður er mikið að spila online með félögunum, finnur sér alltaf eitthvað að gera."
Hugsaði að hann ætti ekki skilið frí
Hvað er Binni að gera á milli tímabila - í fríinu?
„Ég er eiginlega bara búinn að vera æfa síðan ég fór í frí. Það eiga allir skilið frí og það er gott að slaka aðeins á en maður hugsaði að maður ætti það ekki mikið skilið eftir að hafa fallið og maður fór beint í það að æfa. Ég er stundum að æfa með Blikunum og er sjálfur með prógram í ræktinni og í Battar einkaþjálfun," sagði Binni að lokum.
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.
Athugasemdir