Þórsarinn Egill Orri Arnarsson hélt til Ítalíu á dögunum þar sem hann æfði með og skoðaði aðstæður hjá ítalska úrvalsdeildarliðinu Torino. Þetta kemur fram á thorsport.is.
Egill Orri var hluti af U15 ára landsliði Íslands í fótbolta sem tók þátt í UEFA Development Tournament í Slóveníu í haust og var í kjölfarið boðið til æfinga hjá ítalska félaginu.
Síðastliðið sumar var Egill hluti af Íslandsmeistaraliði Þórs í 4. flokki, skoraði sautján mörk í sautján leikjum og lék einnig nokkra leiki með 3. flokki.
Egill dvaldi á Ítalíu í sex daga og æfði með unglingaliðum Torino við frábærar aðstæður.
Tveir Þórsarar eru á mála hjá ítölskum félögum. Jakob Franz Pálsson og Aron Ingi Magnússon eru hjá Venezia.
Athugasemdir