
Lionel Messi er á leið í annan úrslitaleik sinn á HM eftir að liðið vann Króatíu, 3-0, í undanúrslitum mótsins í kvöld.
Messi skoraði og lagði upp í sigrinum en þriðja markið í leiknum var sérstaklega glæsilegt þar sem hann keyrði upp vænginn og lék á varnarmenn Króata áður en hann kom boltanum fyrir á Julian Alvarez sem rak síðasta naglann í kistu andstæðingana,
Argentínumaðurinn er með fimm mörk og þrjár stoðsendingar á mótinu og hefur verið langbesti maður þjóðarinnar.
Messi var valinn maður leiksins gegn Króötum en nú vonast hann til að liðið klári dæmið gegn Frakklandi eða Marokkó í úrslitaleiknum.
„Ég veit ekki hvort þetta sé besta heimsmeistaramót mitt til þessa. Ég hef notið þess að spila þarna í mjög langan tíma. Við vorum vissir um það að þessu liði myndi takast þetta og við vitum vel hvað við erum og biðjum fólk um að hafa trú á okkur.“
„Það eru margir hlutir sem fóru í gegnum hugann en það er bara rosalega spennandi að sjá allt þetta fólk og fjölskylduna hér líka. Allt mótið hefur verið ótrúlegt. Allt sem við höfum upplifað og núna erum við á leið í lokaleikinn, sem er það sem við vildum allan tímann. Við höfum farið í gegnum erfiða kafla og aðra sem voru mjög góðir, en í dag erum við að upplifa sérstaka tíma. Ég er að njóta þess með öllu þessu fólki og öllu fólkinu frá Argentínu sem eru heima. Ég get ímyndað mér að það sé allt vitlaust þar núna,“ sagði Messi eftir leikinn.
Athugasemdir